139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

Icesave.

[15:21]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Af því að það er ítrekað verið að kalla eftir því að staðan eins og hún er núna í Icesave-samningum sé kynnt hér í þinginu finnst mér það fullkomlega geta verið í höndum formanna stjórnarandstöðuflokkanna, sem hafa fylgst með þessu frá A til Ö og setið síðasta fundinn, að kynna það fyrir þingflokkum sínum í trúnaði. (Gripið fram í.) Þeir hafa fylgst með þessu allan tímann og vita nákvæmlega hvernig staðan er og ég trúi ekki öðru en að það sé gert í trúnaði meðan ekki hefur náðst samkomulag milli aðila í þessu máli.

Það sem fram hefur komið um Eftirlitsstofnun EFTA, sem hér er spurt um, og það bréf sem okkur hefur borist og þarf að svara fyrir 7. desember er alveg rétt. Viðskiptaráðherra hefur talað við forseta Eftirlitsstofnunar EFTA og mun gera það eftir því sem þessu máli vindur fram. Ef það er engin niðurstaða komin í þetta núna 7., sem væntanlega er á morgun, mun hann tala við forsetann og þá mun það verða rætt með hvaða hætti send verður inn efnisleg greinargerð um málið og stöðu þess. Þannig er það.

Varðandi forseta lýðveldisins og hvort ég ætli að gera það sem hann hafi talað um, að styðja það að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá held ég að það sé ekki rétt eftir forsetanum haft, að hann hafi sagt að málið ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er afar sérkennilegt ef forseti lýðveldisins hefur sagt á erlendri grund að málið eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ég tel að hann hafi ekki gert, þegar ekki liggur einu sinni fyrir hvernig málið verður afgreitt í þinginu eða hvaða afgreiðslu það fær. (Gripið fram í.)