139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:22]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég veit að það hljómar ótrúlega en það er satt að ég hef töluvert verið að skoða tillögur Íhaldsflokksins í Bretlandi. Hann komst nýlega til valda og er í samstarfi við systurflokk okkar framsóknarmanna. Það er mjög áhugavert að sjá hvernig þeir nálgast niðurskurðinn hjá hinu opinbera, eru að fara í hann af mikilli festu, og hversu mikla áherslu þeir leggja á mikilvægi þess að byggja upp atvinnulífið. Þeir leggja áherslu á að styðja við þá atvinnulausu sem vilja stofna sín eigin fyrirtæki eða starfa við þau fyrirtæki sem þeir þegar starfa fyrir. Það er ekki síst athyglisvert hvernig þeir nálgast niðurskurðinn hjá hinu opinbera, þeir eru í raun búnir að tilkynna að þeir ætli að bjóða öllum opinberum starfsmönnum sem hafa áhuga á því að yfirtaka rekstur þeirra starfa eða þeirrar þjónustu sem þeir sinna á grundvelli þess að þeir mundu stofna samvinnufélög, að það eigi að vera hagnaðarlaus starfsemi.

Það er svo einkennilegt eins og hér að við horfum á allt aðra aðferðafræði á Íslandi þar sem menn virðast einmitt telja að þeir geti skattlagt sig út úr kreppunni og nýta ekki þá krafta sem eru til staðar innan hins opinbera, heldur að vissu leyti berja niður það fólk sem starfar innan opinbera geirans í staðinn fyrir að hvetja það til þess að taka þátt í því mikla verkefni sem fram undan er. Ef við skoðum fortíðina, frá 1979, — ég skal viðurkenna það hér að minn flokkur hefur átt aðild að þeim — þá höfum við markvisst verið að afnema allar skattaívilnanir sem góðgerðafélög eða frjáls félagasamtök hafa fengið. Við tókum væntanlega líka þátt í því að afnema skattaívilnanir sem sparisjóðir voru með á sínum tíma og við höfum svo sannarlega gert skattumhverfi fyrir samvinnufélög miklu erfiðara. Við vorum að koma á framfæri mjög skýrum skilaboðum til atvinnulífsins, til einstaklinganna sem voru að starfa þar, þeirra sem áttu fjármagnið og vildu byggja upp, að besta leiðin til að fá sem mest út úr sínum peningum væri að leggja þá inn í hlutafélagaformið — og ef ekki hlutafélagaformið þá væru það einkahlutafélögin vegna þess að við pössum upp á að tryggja að það væri líka hagstæðast skattalega séð.

Þetta eru ákveðin skilaboð. Við megum ekki gleyma því að allar þær ákvarðanir sem við tökum, hvort sem þær varða breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki eða um staðgreiðslu opinberra gjalda, tekjuskatt, eru alltaf ákveðin skilaboð um það hvers konar samfélag við viljum búa til á Íslandi. Það er ákveðin pólitísk hugmyndafræði sem liggur á bak við þær ákvarðanir sem við tökum hérna.

Það sem meira er, af því að stór hluti af löggjöf okkar kemur frá Evrópusambandinu, virðumst við líka gleyma því að það er ákveðin pólitísk hugmyndafræði sem liggur á bak við það hvernig Evrópusambandið starfar. Grunnhugsunin, og því hefur mér fundist mjög einkennilegt af hverju Sjálfstæðisflokkurinn er svo mikið á móti Evrópusambandinu, er trúin á markaðshagkerfið. Það er forsenda fyrir því að fá að sækja um aðild að Evrópusambandinu að landið á að vera með markaðshagkerfi. (Gripið fram í.) Við sjáum það á allri þeirri löggjöf sem kemur þaðan að þetta er pólitísk hugmyndafræði sem gegnsýrir svo margt af því sem kemur frá ESB.

Þetta tel ég að við þurfum að hafa í huga þegar við erum að vinna með þessa þætti og við erum farin að ræða hluti eins og t.d. þá hvort taka eigi upp almenna skattaívilnun vegna hlutabréfakaupa. Í frumvarpinu er lagt til að hluti af lögum gildi um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem varðaði skattafslátt til fjárfesta sem voru að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.

Ég var alltaf mest hrifin af þeim þætti sem varðaði beinan stuðning til fyrirtækjanna sjálfra. Það tengist því svo sem að ég hef sjálf stofnað fyrirtæki og einnig starfað á þeim vettvangi að veita nýsköpunarfyrirtækjum stuðning og kannast ágætlega við það hversu erfitt það getur verið og hversu kostnaðarsamt það getur verið að koma af stað fyrirtæki sem byggir á nýrri vöru eða nýrri þjónustu. Ég og hv. þm. Birkir Jón Jónsson, Höskuldur Þórhallsson, Ásbjörn Óttarsson, Guðmundur Steingrímsson og Gunnar Bragi Sveinsson töluðum fyrir máli nú á þessu löggjafarþingi þar sem við lögðum til að það gólf sem er í núverandi löggjöf yrði tekið af varðandi það að geta fengið beina skattaívilnun á rannsóknarverkefni eða nýsköpunarfyrirtæki. Þegar frumvarpið kom fyrst inn í þingið var gólfið að mig minnir 20 millj. kr. en var lækkað í meðförum þingsins í 5 millj. kr. og þótti ansi gott. Ég heyrði hins vegar mjög fljótt eftir að þetta varð að lögum að þeim sem störfuðu í þessum geira fannst þetta vera mjög takmarkandi gagnvart minni fyrirtækjunum og líka þegar ég fór að skoða síðan skattkerfið hjá Norðmönnum, sem var nefnt í greinargerðinni að væri ákveðin fyrirmynd — þar fann ég hvergi gólf þótt ég leitaði, fékk meira að segja aðra til að lesa í gegnum greinargerð með þeim lögum. Þá virðist vera kjarni í því að reyna að skilgreina verkefnin sjálf. Það er það sem ég tel vera jákvætt við þessar breytingar, að þarna er verið að leggja meiri áherslu á verkefnin en ekki fyrst og fremst á fyrirtækin og því mundi ég vilja beina því til efnahags- og skattanefndar að hún skoði mjög nákvæmlega fyrirkomulagið eins og það er í Noregi. Það kerfi hefur verið við lýði í þó nokkuð mörg ár þannig að ég geri ráð fyrir að ESA hafi farið í gegnum það fyrirkomulag og samþykkt það. Það ættu þá væntanlega ekki að koma neinar athugasemdir í framhaldi af því. Svo virðist nú hins vegar líka vera að við ættum kannski að fara að athuga það — það er kannski orðinn hluti af þessum nýju reglum sem var um meðferð EES-gerða — í auknum mæli að skoða það jafnvel að leita umsagna. Mér skilst að þingnefndum sé heimilt að leita umsagnar hjá ESA varðandi mál sem við teljum að gæti hugsanlega varðað við EES-samninginn.

Ég vil líka taka undir það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson fór í gegnum í ræðu sinni, um mikilvægi þess að við endurskoðum löggjöf um stimpilgjöld. Sett voru inn undanþáguákvæði þar varðandi fyrstu kaup og það er sem sagt verið að rýmka það varðandi þá breytingar á lánaskilmálum í frumvarpinu. En eins og kom fram í efnahagstillögunum okkar, bæði þeim sem komu fram í febrúar 2009 og þeim sem við höfum lagt fram síðan hér á þingi, þá teljum við að það þurfi að víkka þetta út í því formi sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson talaði um.

Ég vil líka hvetja nefndina til að fara sérstaklega vel í gegnum það fyrirkomulag sem verið er að leggja til hér varðandi skatt á afskriftir. Þetta er eitt af því sem maður heyrir mjög mikið, þeir sem eru núna að reyna að taka sem flest fyrirtæki í gegnum endurskipulagningu á fjárhag hafa áhyggjur af því að þau lendi í miklum sköttum þegar menn eru að reyna að tryggja að lífvænlegur rekstur geti haldið áfram. Það verður náttúrlega að vera þannig þegar við erum að skattleggja að um einhverjar raunverulegar tekjur sé að ræða en ekki eitthvað sem verið er að reikna út á pappír og getur gert það að verkum að þau fyrirtæki sem þarna er verið að reyna að bjarga og viðhalda lendi í erfiðleikum út af aðgerðum eða lögum frá okkur hér á Alþingi.

Ég tel það jákvætt að verið sé að styðja við metanvæðinguna. Eins og kom fram í orðum hæstv. fjármálaráðherra er með því ekki verið að velja úr einhverja ákveðna tegund af endurnýjanlegum orkugjafa heldur er þetta hluti af því úrvali sem við viljum gjarnan sjá hér. Ég mundi gjarnan vilja sjá líka að við gætum einhvern veginn betur stutt við metanvæðinguna á landsvísu. Það er ekki bara það að ekki hafi verið nægilega margir bílar, þeir sem hafa fjárfest í metanbílum eða breytt þeim hafa lent í miklum erfiðleikum með að fara út fyrir höfuðborgarsvæðið. Það er eitt af því sem þyrfti þá að skoða líka, ef við samþykkjum skattaívilnun varðandi nýsköpun og þróun, hvort olíufyrirtækin gætu t.d. nýtt sér þær skattaívilnanir til að byggja upp dreifingarkerfi fyrir metan, a.m.k. að einhverju ráði þó að hugsanlega kosti það nú meira en 100 millj. kr.

Þetta eru þeir helstu punktar sem ég vildi fara í gegnum varðandi þennan bandorm, frumvarp til laga um breyting á hinum ýmsu lagaákvæðum um skatta og gjöld. Ég vil bara svona í lokin ítreka það sem ég talaði hér um í upphafi, að meira að segja þegar við erum að fjalla um klausur sem okkur finnst ekki vera sérstaklega merkilegar að þá eru það alltaf ákveðin skilaboð til samfélagsins. Þetta eru skilaboð um það hvers konar landi, hvers konar samfélagi við viljum búa í og þá skiptir mjög miklu máli að við vöndum okkur vel við það.