139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[22:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er síðasta ræðan sem ég get haldið í þessari umræðu um fjáraukalagafrumvarpið, ég má einungis halda tvær ræður, og því vil ég nota tækifærið og koma aðeins inn á stærstu breyturnar frá því að fjárlög voru samþykkt árið 2010 þar til nú í lok árs 2010 þegar við ræðum fjáraukalagafrumvarpið. Annars vegar eru eignir seldar upp á tæpa 20 milljarða kr. og hins vegar lækka vaxtagjöld um tæpa 20 milljarða kr. Það sem mig langar að gera að umtalsefni eru allar þær lækkanir á bótaflokkum sem koma hér fram og allur sá hrærigrautur. Breytingarnar eru rúmir 6 milljarðar kr., bara í ellilífeyris- og örorkubótum. Til lækkunar fyrir ríkissjóð eru þetta um 4 milljarðar kr. Ég hef verið svolítið hugsi yfir þessu eftir að við fengum breytingartillögurnar, hvernig þetta gerist. Ég er alltaf að skilja betur og betur þær ábendingar og athugasemdir sem forustumenn eldri borgara og öryrkja gerðu við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin réðst í í júní 2009. Þá héldu þessir ágætu félagsmenn því fram að gengið væri mjög hart fram gegn þeim. Á fundi fjárlaganefndar kom fram að þeir kvörtuðu mikið undan þeim aðgerðum sem farið var í. Þetta staðfestir það. Í raun og veru eru bæturnar, sem reiknað var með að ellilífeyrisþegar og öryrkjar mundu fá, 4 milljörðum kr. lægri en gert var ráð fyrir. Samt var reiknað með að aðgerðirnar sem farið var í í júní 2009 mundu skerða bætur örorku- og ellilífeyrisþega um 7 milljarða kr. Þetta eru því í raun og veru 11 milljarðar kr.

Mig langar til að fara örstutt yfir þessar tölur, bara nokkrar þeirra sem eru þó stærstar. Til að mynda maka- og umönnunarbætur, þær lækka um 14%. Endurhæfingarlífeyrir lækkar um 10%, þ.e. 110 millj. kr. Heimilisuppbót lækkar um 200 millj. kr. Frekari uppbætur minnka um hvorki meira né minna en 30%, 1.200 millj. kr. Ellilífeyririnn lækkar um 1.400 millj. kr. Tekjutenging ellilífeyrisþega minnkar um 900 millj. kr. Vasapeningar ellilífeyrisþega minnka um 21%, þ.e. 300 millj. kr. Bara þessi örstutta upptalning sem ég hef farið hér með gerir samtals um 4 milljarða kr. Staðfestir það ekki, virðulegi forseti, málflutning forustumanna samtaka ellilífeyrisþega og öryrkja, að gengið sé mjög hart fram gegn þeim? Niðurstaðan er, eins og ég sagði áðan, að skerðingin til þeirra er um 11 milljarðar kr. en reiknað hafði verið með um 7 milljörðum kr. Þetta staðfestir það sem forustumenn samtakanna hafa bent okkur á. Ég tel mjög mikilvægt, og við höfum lagt það til og kemur fram í nefndaráliti okkar, að bótaflokkarnir verði skoðaðir sérstaklega í ljósi þeirra upplýsinga sem komu hér fram. Hér fer fram gríðarleg skerðing hjá þessum hópum sem eru nú ekki ofaldir af því sem þeir hafa. Það er mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd láti skoða þetta sérstaklega.

Ég vil nota síðustu sekúndurnar sem ég hef til að segja þetta: Það er mjög mikilvægt að hv. fjárlaganefnd breyti vinnubrögðunum við framkvæmd fjárlaga og eftirfylgni með fjárlögum og fjárreiðum ríkisins. Í fyrsta lagi þarf að setja framkvæmdarvaldinu stólinn fyrir dyrnar og láta framkvæmdarvaldið vita af því að í framtíðinni verði vinnubrögðin önnur. Síðan tel ég líka mjög mikilvægt að allar markaðar tekjur fari beint inn í ríkissjóð, en ekki til einstakra stofnana eins og gert er núna, svo hægt sé að ná betri tökum á útgjaldastýringu ríkissjóðs. Með þeim hætti hafa sumar stofnanir fengið mun meiri fjárheimildir á milli ára þrátt fyrir niðurskurðinn. Þess vegna er mikilvægt að hver einasta stofnun starfi eftir þeim fjárframlögum sem eru samþykkt á Alþingi og hafi sérstakan útgjaldaramma. Þetta tel ég mjög mikilvægt til að við náum tökum á ríkisfjármálunum og jöfnuði í ríkisfjármálunum, það er gríðarlega mikilvægt og held ég að enginn deili um það hér.