139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Eyglóar Harðardóttur hvað varðar stöðu heimilislækna á Íslandi í dag. Þetta er ekki nýtt, skortur á heimilislæknum hefur verið viðvarandi um nokkurn tíma. Komið hafa fram fjölmargar ábendingar um að það verði að bæta úr og það er verið að gera það núna með auknum námsstöðum en það verður að horfa líka til lengri tíma því að stór hópur heimilislækna er kominn á efri ár í vinnu og mun hætta störfum af þeim sökum.

Hvað varðar það atriði sem hv. þingmaður tekur upp, hvort hægt væri að létta störf heimilislækna, og þá er horft á höfuðborgarsvæðið þar sem er skortur á læknum í dag, má vissulega skoða það. Ég ætla ekki að svara því í þessu andsvari en ég tel að innan fagstéttanna, meðal lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra, beri að skoða hvort hægt sé að breyta vinnubrögðum. Eitt tel ég þó vera alveg sjálfsagt í stöðunni í dag, og það er sama á hvaða stofnun það er, það að auka þverfaglega vinnu og samtvinna heilbrigðisstéttir meira en tíðkast víðast hvar. Ég veit ekki hvort þetta eitt dugir en það bætir a.m.k. vinnubrögðin.

Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns um skort á heimilislæknum. Ég horfi þá sérstaklega til dreifbýlisins hvað varðar aldurssamsetninguna. Þó að það vanti á höfuðborgarsvæðinu hef ég ekki áhyggjur af því að heimilislæknar vilji ekki vera á því svæði en ef heimilislæknar hverfa af braut úti um (Forseti hringir.) land verður erfiðara að manna þær stöður í framtíðinni.