139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, það vantar alla yfirsýn yfir málið í heild sinni. Þessi gjörningur er hins vegar að sumu leyti nauðsynlegur til að bæta eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs. Það er líka mjög mikilvægt að rannsókn fari fram og gerð verði úttekt á starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Til að fara yfir feril þessa máls í hv. fjárlaganefnd, svo að þeir sem ekki sitja þar geri sér grein fyrir því, komu upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu um að það þyrfti 18 milljarða til að bæta eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs. Nokkrum klukkutímum síðar koma svo upplýsingar frá félagsmálaráðuneytinu og Íbúðalánasjóði að það þurfi 22 milljarða. Þarna skeikar ekki nema 4 milljörðum. Þannig að það eiga allir að sjá það sem vilja hvers konar yfirsýn er á þessu öllu sem við erum hér að framkvæma. Það er því mjög mikilvægt að fram fari sérstök úttekt á málefnum Íbúðalánasjóðs og eins að hv. fjárlaganefnd og þingið vandi sig mun betur í framtíðinni við gerð fjárhagsáætlana fyrir (Forseti hringir.) ríkissjóð til að hægt sé að ná tökum á ríkisfjármálunum.