139. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2010.

samkeppnislög.

131. mál
[21:16]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að reyna að skipta mönnum í hópa eftir því hvort þeir standa með eða á móti neytendum eða með eða á móti íslenskum fyrirtækjum. Ég lýsti því í ræðu minni að ég vildi vernda hag neytenda en ég teldi að í frumvarpinu væri verið að ganga of langt. Ég er ekki einn þeirrar skoðunar svo að ég beini orðum mínum til nútímajafnaðarmannsins hv. þm. Magnúsar Orra Schrams vegna þess að undir þessi sjónarmið taka öll samtök atvinnulífsins á öllum sviðum þess. Atvinnurekendur taka undir þetta, Lögmannafélag Íslands og fulltrúar þeirra sem hafa mætt fyrir nefndina og hafa beina hagsmuni af málinu.

Ég er hins vegar ekkert á móti því að menn reyni að haga löggjöf þannig að hún sé til hagsbóta fyrir neytendur en við megum hins vegar ekki ganga svo langt að veita stjórnvöldum heimildir til þess að brjóta upp fyrirtæki án þess að þau hafi brotið lög, (Forseti hringir.) það vill hv. þingmaður.