139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[10:42]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það var ákveðið á fundi ríkisstjórnarinnar á Suðurnesjum ekki alls fyrir löngu að ráðast í markvissa hagkvæmnikönnun á því að flytja höfuðstöðvar og starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja. Það var ákveðið að verja tiltekinni fjárupphæð til þessara athugana þannig að það er í farvegi. Við tökum að sjálfsögðu ekki ákvörðun nema að vel yfirveguðu ráði og ætlum ekki að hrapa að neinu í þessum efnum. Stundum hefur verið ráðist í breytingar og flutninga á stofnunum án þess að slík rannsókn færi fram og það hefur aldrei kunnað góðri lukku að stýra. En þetta mál er í markvissum farvegi, get ég fullvissað hv. þingmann um.

Varðandi ECA-verkefnið er ég ekki sammála hv. þingmanni um að þar sé ekki um neina fjármuni að tefla þegar skattpyngja almennings er annars vegar. Undirbúningur þess að auðvelda þessu fyrirtæki, ECA, að hefja hér starfsemi á þeim forsendum sem fyrirtækið býður upp á kostar umtalsverða fjármuni úr ríkissjóði. Þar værum við að mínu mati að tefla mjög mikilvægum fjárhagslegum hagsmunum og atvinnuhagsmunum Íslendinga í tvísýnu vegna þess að í flugheiminum, sem er mjög viðkvæmur, eiga Íslendingar mikilla hagsmuna að gæta. Það er mjög eindregin afstaða flugmálayfirvalda að þetta sé ekki ráðlegt, það sé ekki ráðlegt að ráðast í þetta verkefni og menn eigi ekki að láta undan þrýstingi í þeim efnum. Ég er mjög eindregið á þeirri skoðun að það væri ekki gott ráð (Forseti hringir.) á heildina litið að ráðast í þetta verkefni, alls ekki. (Gripið fram í.)