139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að gera athugasemd við að þessi þingfundur er lokaður almennri áheyrn. Það er óvanalegt að slíkt sé gert. Ég bar þetta upp við hæstv. forseta Alþingis áðan, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, þar sem ég taldi að þetta væri ekki heimilt. Hún tjáði mér í vitna viðurvist að hún hefði heimild til að halda þingfundi áfram þó almenningi væri meinaður aðgangur að þingpöllum. Í 57. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Fundir Alþingis skulu haldnir í heyranda hljóði. Þó getur forseti eða svo margir þingmenn sem til er tekið í þingsköpum krafist, að öllum utanþingsmönnum sé vísað burt, og sker þá þingfundur úr, hvort ræða skuli málið í heyranda hljóði eða fyrir luktum dyrum.“

Þar sem ég hef þegar nefnt þetta við forseta Alþingis og hún gefið grænt ljós á áframhald fundarins þótt lokaður sé, tel ég rétt að það komi fram að ég geri það að tilmælum hæstv. forseta Alþingis sjálfs að flytja hér mál mitt um fjárlagafrumvarpið og vona að það komist til skila eftir réttum boðleiðum.

Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 3. minni hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp næsta árs 2011.

Þriðji minni hluti hefur farið vandlega yfir tekju- og útgjaldaáætlun fjárlagafrumvarpsins og þær þjóðhagsforsendur sem liggja henni til grundvallar. Að mati 3. minni hluta voru þær grundvallarbreytingar sem gerðar voru á skattkerfinu á síðastliðnu ári að mörgu leyti mjög til bóta og mikilvægur áfangi til leiðréttingar á þeim losarabrag sem verið hefur á skattumhverfi á Íslandi undanfarin ár. Að auki voru þær tímabær leiðrétting á þeim ábyrgðarlausu skattalækkunum sem gerðar voru á hámarki þensluskeiðsins síðasta og virkuðu sem olía á eld þenslunnar.

Hvað varðar áhrif núverandi skattbreytinga á efnahagslífið almennt og þjóðarhag telur 3. minni hluti að þær gangi ekki upp við þær aðstæður sem nú eru í íslenskum efnahagsmálum. Rökstuðningurinn byggist á keynesískum kenningum hagfræðinnar þar sem gengið er út frá því að ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með skattheimtu hafi örvandi áhrif á hagkerfið í niðursveiflu (samdrætti) og það er talinn misskilningur að aukin skattheimta dragi úr eftirspurn í hagkerfinu. Einnig er því haldið fram að aukning á útgjöldum ríkissjóðs muni auka eftirspurn í hagkerfinu meira en sem nemur samdrætti einkaneyslu vegna samsvarandi skattheimtu. Rök þessi eru góð og gild við ákveðnar aðstæður og hafa reynst vel sem sveiflujafnandi og kreppuminnkandi aðgerðir og kenningin sem slík gengur upp í reynd þótt ýmislegt beri að varast við notkun aðferðanna, sérstaklega hvað varðar þá freistingu að ofgera notkun þeirra og varanleika.

Undir þeim kringumstæðum sem íslenskt efnahagslíf býr við í dag er þess hins vegar ekki að vænta að um verði að ræða samsvarandi eða meiri aukningu eftirspurnar en sem nemur skattheimtunni vegna bágrar skuldastöðu ríkissjóðs og takmarkaðs svigrúms til útgjalda. Stór hluti ríkisútgjalda fer í að greiða vexti af lánum og allar auknar tekjur sem falla til vegna hærri skatta fara beint í þann útgjaldalið. Einnig er á sama tíma um að ræða umtalsverðan niðurskurð í ríkisútgjöldum með tilheyrandi samdrætti og uppsögnum starfsfólks í stórum stíl þannig að í raun er æpandi þversögn í beitingu þessara aðferða sem í rökstuðningi frumvarpsins eru sagðar auka eftirspurn.

Því er hætt við að skattahækkanirnar muni einfaldlega leiða til enn frekari samdráttar en þegar hefur orðið þar sem þær þýða að ráðstöfunartekjur heimila munu skerðast. Í þessu sambandi er vert að benda á að ef hugmyndin er að auka eftirspurn og einkaneyslu er myndarleg niðurfærsla á verðtryggðum höfuðstól íbúðalána heimila líklegri til að leiða til þeirrar auknu eftirspurnar sem ætlunin er að ná fram í frumvarpinu og hefur góð sálræn áhrif á heimilin þar sem bjartsýni þeirra á framtíðina eykst. Aukin skattheimta hefði hins vegar þveröfug áhrif hvað þetta varðar.

Um það er ekki deilt að ríkissjóður stendur illa og einhvern veginn þarf að reyna að rétta af þann gríðarlega halla sem blasir við af völdum efnahagshrunsins. Ríkisstjórnin hefur valið svokallaða blandaða leið þar sem útgjöldin eru skorin niður og skattar hækkaðir á almenning og fyrirtæki, leið sem 3. minni hluti telur við þessar aðstæður bæði óheppilega og í raun óþarfa.

Ljóst er að skattstofnar ríkissjóðs hafa rýrnað mjög og sumir allt að því horfið. Almennar launatekjur og tryggingagjaldið eru stöðugir og tiltölulega auðinnheimtir skattstofnar og því freistandi að fara þá leið í leit að tekjum fyrir ríkissjóð eins og gert var í fjárlögum í fyrra. Í því efnahagsástandi sem við búum við nú eru þessir skattstofnar hins vegar viðkvæmir og geta auðveldlega rýrnað að upphæð og fjölda greiðenda ef brottflutningur frá landinu heldur áfram og það hafa þeir gert.

Dæmi um alvarlegar rökvillur í lagasetningu er fyrirliggjandi frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á vörugjöldum bifreiða. Þær breytingar sem eru fyrirhugaðar á vörugjöldum bifreiða eru með tengingu við kolefnislosun þeirra og eru í raun algerlega óraunhæfar og órökréttar þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir 29 undanþáguflokkum. Í undanþáguflokkunum eru allir þeir sem keyra mest og menga mest með undanþágur. Þar má nefna vöruflutningabíla, dráttarbíla, leigubíla, rútur og bílaleigubíla, sem ásamt öðrum undanþágum gerir það að verkum að nánast allt atvinnulífið er undanþegið, skattstofninn þrengist og skatturinn lendir nánast alfarið á fjölskyldum og einstaklingum sem þurfa að keyra í vinnuna og út í búð. Hér hefur fjármálaráðherra gefist algerlega upp fyrir sérhagsmunahópum og almenningur borgar brúsann. Það eru einfaldlega engin haldbær rök fyrir því að flutningabílar sem menga gríðarlega eða erlendir ferðamenn á bílaleigubílum, svo að fá dæmi séu tekin, séu undanskildir kolefnisskatti. Hér er því ekki um stefnubreytingu í skattheimtu að ræða eins og ráðherrann vill telja fólki trú um nema að því leyti að verið er að færa skattstofn í meira mæli yfir á almenning og láta undan þrýstingi frá sérhagsmunahópum undir yfirskini umhverfisstefnu.

Auknir skattar á heimilin eru erfið viðbót við þær hremmingar sem þegar hafa dunið á þeim og að sama skapi er tryggingagjaldið í raun gjald fyrir að hafa fólk í vinnu sem getur takmarkað enn frekar vilja fyrirtækja til mannaráðninga. Því telur 3. minni hluti brýnt að leita annarra leiða til að rétta við hag ríkissjóðs en þeirra sem fyrirhugaðar eru í fyrirliggjandi frumvarpi. Þriðji minni hluti leggur því til að í stað þeirra skattahækkana og niðurskurðarútgjalda til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og með frumvörpum um tekjuöflun ríkisins skuli leitast við að afla ríkissjóði tekna sem hér segir:

Í fyrsta lagi er lagt til að tekið verði upp auðlindagjald af raforkusölu til stóriðju í stað sérstaks skatts af allri seldri raforku. Gjald þetta yrði 1 kr. á kílóvattstund af seldri raforku. Miðað við tölur Orkustofnunar um raforkusölu til stóriðju gæti þetta gjald skilað tekjum upp á u.þ.b. 12,4 milljarða kr. á ári. Þar sem raforkusala til Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga er meitluð í stein hvað verðbreytingar varðar verði leitast við útfæra auðlindagjaldið sem hlutfall af útflutningsverðmæti verksmiðjunnar þannig að það nemi samsvarandi upphæð og 1 kr. á selda kílóvattstund. Lagt er til að dregið verði úr fyrirhuguðum niðurskurði í útgjöldum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála til samræmis við þetta á móti.

Í öðru lagi leggjum við til að tekið verði upp auðlindagjald á úthlutaðar aflaheimildir til fiskveiða. Gjald þetta verði að meðaltali 50 kr. á úthlutað kíló. Miðað við úthlutaðar aflaheimildir ársins 2009/2010, sem eru 366.627 tonn, gæti gjaldið skilað tekjum upp á u.þ.b. 18,3 milljarða kr. á ári. Lagt er til á móti að fyrirhugaður niðurskurður í útgjöldum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála verði minnkaður til samræmis við þetta og að það sem út af stendur verði notað til lækkunar tryggingagjalds.

Slík skattheimta sem að framan greinir er hlutlaus fyrir heimilin og leggst á þær greinar atvinnulífsins sem standa best allra í dag vegna lækkunar á gengi krónunnar. Hér er einnig um að ræða réttláta skattlagningu í þeim skilningi að þessar atvinnugreinar nota auðlindir landsins án endurgjalds, auðlindir sem eru sameign allrar þjóðarinnar. Auk þess er miklu auðveldara að innheimta auðlindagjald með þessum hætti heldur en með hugmyndum um tekjuskatt eða veiðileyfagjald sem hlutfall af hagnaði fyrirtækja.

Frú forseti. Hvað varðar útgjaldahlið frumvarpsins er augljóst að alvarlegir meinbugir eru á starfsemi Alþingis þegar kemur að útgjaldahlið fjárlaga. Nefndarmenn fjárlaganefndar eru vikum saman með viðtöl við fólk frá alls konar félögum og stofnunum og jafnvel við einstaklinga sem koma á fund nefndarinnar til að biðja um peninga. Þetta virðist nefndarmönnum eðlileg framvinda mála og mátti oft heyra á máli þeirra og þá sérstaklega nefndarmanna stjórnarmeirihlutans að þeir yrðu að snúa bökum saman fyrir sitt kjördæmi. Við gerð síðustu fjárlaga þegar gestir komu á fund nefndarinnar og sögðust vera spákonur og skrímslasérfræðingar og mývetnskir jólasveinar gerði 3. minni hluti sér ekki grein fyrir því að alvara fylgdi máli en reiknaði með að hér væri bara enn eitt dæmið um hina alræmdu íslensku ofurkurteisi að ræða og að hefð væri fyrir því að hlusta á alla. Fulltrúar meiri hlutans ákváðu hins vegar að taka þetta fólk alvarlega og afhenda því milljónir af skattfé landsmanna og deildu því með sem jafnastri dreifingu hver í sitt kjördæmi. Þetta fyrirkomulag og samsvarandi afgreiðsla hefur haldið áfram við fjárlagagerðina í ár og nú eru gæluverkefnin til kjördæmanna sem nefndarmenn sjálfir úthluta að minnsta kosti 120 ef ekki fleiri og upphæðirnar skipta hundruðum milljóna.

Það er með þetta eins og fjölmarga aðra útgjaldaliði í tillögum meiri hlutans að hér er ekki endilega farið skynsamlega með almannafé og í raun er þetta á mörkum hins siðlega að mínu mati. Tillögur fjárlaganefndar um framlög til húsafriðunar eru enn eitt dæmið um slíka úthlutun fjármuna og í stað þess að láta faglega nefnd sem þegar er til, húsafriðunarnefnd, sjá um að forgangsraða í því brýna verkefni sem friðun og endurbygging gamalla húsa er, þá kjósa þingmenn að veita fé í fjölmörg verkefni í eigin kjördæmum eða alls 26 undir formerkjum húsafriðunar. Meiri hlutinn hreinlega mokar fjármunum í hvers kyns gæluverkefni heima í héraði í stað þess að láta fagstofnanir eða fagaðila um úthlutanir og tilheyrandi eftirlit. Þetta er gert á einhverri mestu ögurstund íslenskra ríkisfjármála þegar verið er að skera niður fé til heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála.

Það hefur legið fyrir frá fjárlagagerðinni í fyrra að taka þetta fyrirkomulag til endurskoðunar í fjárlaganefnd og hefur verið vilji til þess meðal nefndarmanna. Orðum hafa ekki fylgt gerðir og þetta hefur enn ekki verið gert og því mun ég nú sem endranær halda áfram að gagnrýna þetta fyrirkomulag þar til breyting verður á.

Úthlutun hundraða milljóna til stjórnmálaflokka er svo enn eitt dæmið um hvernig sitjandi þingmenn reyna að tryggja sér áframhaldandi völd en í fjárlögum næsta árs úthlutar fjórflokkurinn sjálfum sér, án umræðu, 304 millj. kr.

Það er mat 3. minni hluta að flestöllum svokölluðum safnliðum beri að fresta. Flestir rúmast nú þegar innan starfssviða ýmissa sjóða og hinum ætti tafarlaust að koma fyrir annaðhvort innan ráðuneytanna eða hjá nýjum sjóðum, t.d. svæðisbundnum, sem gætu lagt faglegt mat á umsóknirnar og fylgt því eftir að fjármununum væri varið í þau verkefni sem ætlast er til.

Þriðji minni hluti vill að lokum lýsa undrun sinni á vinnubrögðunum sem viðgengist hafa við gerð fjárlaga, hvort sem um er að ræða efnahags- og skattanefnd eða fjárlaganefnd en sem kunnugt er á ég sæti í báðum þeim nefndum. Viðamiklar breytingar á viðkvæmum tímum eru mjög varasamar og ber ekki að afgreiða með þeim hætti sem gert er í þessum fjárlögum. Sú tilraun sem verið er að gera með að endurskipuleggja heilbrigðiskerfi alls landsins í gegnum fjárlögin en ekki á faglegum forsendum er beinlínis forkastanleg. Þótt erfitt geti verið að bæta úr því sem komið er mundu tillögur 3. minni hluta um nýja skattstofna gefa öllum hlutaðeigandi nægilegt svigrúm til að undirbúa betur breytingar og hagræðingu í rekstri ríkisins og virka mun jákvæðari á almenning og fyrirtæki í landinu en þær fjárlagatillögur sem fyrirhugaðar eru.

Frú forseti. Fjárlagafrumvarp hvers árs er helsta stefnumótunarplagg ríkisstjórnar í efnahagsmálum. Það plagg hefur nú litið dagsins ljós og fengið viðeigandi umfjöllun. Hér er um að ræða áframhaldandi stefnu sem lögð er fyrir af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Mjög margir hafa bent ítarlega á, alveg frá fyrstu aðkomu hans að málum á Íslandi, að þeim samfélögum farnist ekki vel sem lúta stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Efnahagsstefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er vond fyrir almenning í þeim löndum þar sem hann kemur að málum og hún hefur verið vond fyrir almenning á Íslandi. Skuldum bankakerfisins sem stofnað var til hefur að stórum hluta verið velt yfir á almenning í landinu í gegnum Seðlabankann og reynt hefur verið að gera það í gegnum Icesave-samkomulagið. Almenningur skal borga brúsann og þúsundir manna munu, eins og fram hefur komið, jafnvel missa heimili sín vegna þessa. Verðtryggingin kemur í veg fyrir að almenningur geti eignast húsnæði sitt og það er grátlegt fyrir venjulegt fólk að þurfa að horfa upp á það árum saman, eftir tugi ef ekki hundruð afborgana af húsnæðislánum, að höfuðstóll lánsins hefur ekkert lækkað. Það væri sama þótt menn hentu peningunum út um gluggann, þeir mundu ekki eiga neitt minna í húsinu sínu.

Það hefur ýmislegt komið upp á síðustu dögum við fjárlagagerðina sem vert er að minnast á í lokin, frú forseti. Á síðustu dögunum duttu inn hvorki meira né minna en 25 milljarðar í áfallnar ábyrgðir ríkissjóðs á lánum Lánasjóðs landbúnaðarins, ábyrgðir sem hefðu ekki átt að koma til, eru svokallaðar einfaldar ábyrgðir og menn hafa ætíð sagt að þær væru nánast hættulausar fyrir ríkissjóð. Ég leyfi mér að benda á að ríkisábyrgðir sem eru á öllum skuldum Íbúðalánasjóðs og skuldum Landsvirkjunar eru einfaldar ábyrgðir og þar erum við að tala um ábyrgðir að upphæð 1.300 milljarðar. Hér þarf því að stíga varlega til jarðar og brýna stjórnsýsluna til að láta svona hluti ekki gerast aftur því þetta átti ekki að gerast. Miðað við þá sem komu fyrir fjárlaganefnd á þeim tíma er enn ekki komin fullnægjandi útskýring á því hvernig á þessu stendur.

Hið sama á við um Íbúðalánasjóð sem fær 33 milljarða kr. lánaheimild, að hluta til til að laga eigið fé. Íbúðalánasjóður er þannig byggður upp og hefur þannig tæki og tól að ef honum er vel stjórnað á aldrei — aldrei — að koma til þess að hann þurfi að ganga á eigið fé. Hér hefur einnig orðið misbrestur á. Sem betur fer er fyrirhuguð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs undanfarin ár og mun þá koma í ljós hvort einhver mistök hafi verið gerð á þeirri vegferð.

Hluti af þessu eru svo að sjálfsögðu eftirköst einkavæðingarinnar sem hér gekk yfir. Þar var farið fram af miklu meira kappi en forsjá og menn gleymdu því í hita leiksins að þótt ákveðnar kenningar í hagfræði séu skemmtilegar og fallegar ganga þær einfaldlega ekki upp í praxís. Ef menn hefðu stigið hægar og varlegar til jarðar í því stæðum við ekki í þeim sporum í dag að vera með nánast algjörlega hrunið hagkerfi sem mjög erfitt er að koma í gang og verður áfram erfitt að koma í gang með áframhaldandi stefnu núverandi ríkisstjórnar.

Frú forseti. Ég mun ekki hafa mál mitt lengra. Fjárlagafrumvarpið fer aftur inn í fjárlaganefnd, væntanlega verða gerðar á því einhverjar breytingar til batnaðar en ég efast þó um að hægt verði að laga allt það tjón sem fyrirsjáanlegt er í frumvarpinu, t.d. í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum. Það er einfaldlega ein af þeim afleiðingum sem fylgja því að taka upp efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar er skorið niður og þar hefur verið skorið niður á öllum þeim stöðum þar sem sjóðurinn hefur komið að. Eins og ég hef sagt áður þá þarf það ekki endilega að vera þannig en ríkisstjórnin hefur valið þá vegferð sjálf.