139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:58]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs hér við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið til að reifa helstu sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar Alþingis um fjárlög til mennta- og menningarmála. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytis lækki um tæpa 3,9 milljarða kr. borið saman við fjárlög yfirstandandi árs, þ.e. um 6,4%. Hagræðingarkrafan skiptist þannig á milli helstu verkefna að hún er minnst á framhaldsskóla og samkeppnissjóði, 4–6%, um 7,5% að jafnaði á háskóla og 9% á menningarmál. Meiri hluti menntamálanefndar styður þá viðleitni til aukins samstarfs og samnýtingar fjármagns milli opinberu háskólanna sem kemur fram í svokölluðu samstarfsneti opinberu háskólanna, en alls er gert ráð fyrir því að 300 millj. kr. verði varið til þess verkefnis á næstu tveimur árum, 150 millj. kr. hvort ár. Þessu fé verður varið til að fjármagna ný samstarfsverkefni háskólanna sem væntingar eru um að geti leitt til hagræðingar á síðari stigum.

Enginn vafi er á því að þörf er á uppstokkun og nýrri hugsun í háskólakerfi okkar. Núna eru sjö háskólar í landinu, fjórir opinberir skólar og þrír einkaskólar, og afar mikilvægt að næstu mánuðir verði nýttir vel til að þrautkanna alla möguleika til að nýta fjármuni til háskólastarfsemi betur, og ekki síst forgangsraða.

Það er álit meiri hluta menntamálanefndar að við núverandi aðstæður í samfélagi okkar þurfi að leggja sérstaka áherslu á eflingu verk- og tæknimenntunar í landinu, ekki síst þegar við horfum til þess að skortur er á fagmenntuðu starfsfólki með slíka menntun í ýmsum helstu vaxtargreinum íslensks atvinnulífs. Þar nefni ég sem sérstakt dæmi íslenskan hugverkaiðnað þar sem er að finna mörg framsæknustu fyrirtæki landsins, CCP, Össur, Marel, Actavis, Marorku og mörg fleiri. Þau fyrirtæki hafa gefið það út að þau telji sig geta bætt við sig um 1 þús. nýjum starfsmönnum með verk- og tæknimenntun á ári næstu þrjú til fimm árin. Vandamálið er hins vegar að íslenskt menntakerfi hefur ekki undan að útskrifa svo marga nemendur með þá menntun sem um ræðir. Hér er að mínu mati áskorun til okkar stjórnmálamanna sem við hljótum að taka alvarlega. Við getum í senn skapað verðmæt störf, rofið vítahring atvinnuleysis fyrir ungt fólk í landinu sem hefur dvalið sumt hvert missirum saman á atvinnuleysisskrá og á sama tíma skapað þeim tækifæri til að hasla sér völl í gróskumiklum iðnaði samfélagsins. Jafnframt skapar slíkt verkefni tækifæri til að hefja verk- og tæknimenntun til vegs og virðingar í samfélaginu. Slík lausn kallar sannarlega á nýja hugsun og samstillt átak stjórnvalda, atvinnulífs, háskóla, framhaldsskóla og verkalýðshreyfingar.

Ég get upplýst að samtöl þessara aðila um slíkt verkefni eru þegar hafin og skila vonandi raunhæfum tillögum á næstu mánuðum.

Virðulegi forseti. Á þeim þrengingartímum sem við lifum er mikið átak að vinna á tugmilljarðafjárlagahalla á örfáum missirum og rétt að það komi skýrt fram að ég er einarður stuðningsmaður þeirra áætlana sem fram koma í efnahagsáætlun stjórnvalda um róttækan niðurskurð á næstu árum. Það er einfaldlega skynsamlegasta leiðin til að koma í veg fyrir að skuldaráðuneyti verði fyrirferðarmest í ríkisbúskapnum næsta áratuginn. Hver króna sem varið er í að greiða af skuldum ríkissjóðs er töpuð króna fyrir velferðarsamfélagið og framtíðaruppbyggingu atvinnulífs og heimila í landinu. Hins vegar verðum við að hafa kjark til að forgangsraða með þeim hætti að við náum kröftugri viðspyrnu sem samfélag. Því hefur menntamálanefnd Alþingis miklar áhyggjur af boðuðum niðurskurði til háskóla og framhaldsskóla í landinu. Endurreisn samfélagsins úr rústum fjármálahrunsins byggir nefnilega ekki síst á því að við náum að auka verulega áherslu á nýsköpun í samfélaginu og fjárfestingar í vaxtargreinum atvinnulífsins, en öll sú viðleitni er dæmd til að mistakast ef við hlúum ekki vel að öflugu starfi framhaldsskóla og háskóla í landinu.

Hagræðingarkrafan á framhaldsskólana er um 5,8% að jafnaði í fjárlagafrumvarpinu og vill meiri hluti nefndarinnar vekja sérstaka athygli á því að niðurskurður á undanförnum árum hefur komið mjög hart við flesta framhaldsskóla í landinu og má segja sem svo að nú hafi niðurskurðarhnífurinn gengið inn að beini.

Meiri hluti menntamálanefndar leggur ríka áherslu á að leitað verði allra leiða til að draga úr niðurskurði á framlögum til framhaldsskóla og vekur sérstaka athygli á þeim miklu hækkunum sem hafa orðið á leigusamningum framhaldsskólanna við fasteignir ríkissjóðs á undanförnum árum, á sama tíma og leiguverð á almennum markaði hefur að jafnaði lækkað. Því fagna ég sérstaklega breytingartillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar um aukin framlög upp á 250 millj. kr. eða þar um bil til framhaldsskólanna, tel að það sé mikilvægt skref í rétta átt, sem og tillögur um að hækka framlög til Háskóla Íslands um 140 millj. kr.

Sömuleiðis er mikilvæg sú viðleitni sem kemur fram í breytingartillögum meiri hlutans um að efla starfsemi þekkingarsetra í landinu. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá Þekkingarneti Austurlands sem við teljum að standi fyrir afar mikilvægri starfsemi þessi missirin sem megi ekki skera niður eins og áform hafa verið um á undanförnum vikum vegna þess að samningar voru að renna sitt skeið.

Lánasjóður íslenskra námsmanna þarf að þola talsverðan niðurskurð frá gildandi fjárlögum, um 713 millj. kr. Hann stafar af því að lánþegar á Íslandi reyndust umtalsvert færri en áætlað var. Það er ekki svigrúm til að bæta verulega í varðandi lánasjóðinn á næstu missirum en þó er mikilvægt að stíga ákveðin skref varðandi grunnframfærsluna og skilgreina enn betur framfærsluþörf námsmanna en gert hefur verið. Það er rétt að viðurkenna að í reynd hefur framfærslustuðull lánasjóðsins verið tekinn úr sambandi við þá þróun sem hefur orðið í samfélaginu. Það er nauðsynlegt að það verði endurskoðað hið fyrsta.

Ég vík þá að menningarmálunum. Meiri hluti nefndarinnar vekur sérstaka athygli á stöðu kvikmyndagerðarinnar í landinu og verð ég að lýsa yfir vonbrigðum með að ekki sé í fjárlagafrumvarpinu gripið til endurskoðunar á þeim miklu lækkunum sem urðu til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands á síðasta ári, sá sjóður varð þá fyrir 30% niðurskurði sem var langt umfram það sem flestar menningarstofnanir í landinu þurftu að þola. Þessi niðurskurður er einfaldlega óskynsamlegur við núverandi aðstæður. Það er bæði óeðlilegt að þessi tiltekna grein þurfi að þola margfaldan niðurskurð á við aðrar greinar menningarinnar en atvinnusköpunarþátturinn er sérstakt umhugsunarefni í þessu efni. Eins og margir þekkja eru framlög til kvikmyndamála á Íslandi eins konar segull á fjármagn úr erlendum kvikmyndasjóðum, hver króna sem við setjum í kvikmyndagerð í Kvikmyndamiðstöð Íslands skilar sér ríflega tvöfalt til baka inn til landsins í formi viðbótarframlaga í gegnum erlenda kvikmyndasjóði. Þarna erum við hreinlega með markvissum hætti að draga úr veltu og viðgangi þessarar greinar og því er afar mikilvægt að fjárlaganefnd skoði sérstaklega milli 2. og 3. umr. hvort ekki sé hægt að vinda ofan af þessari þróun, stíga ákveðin skref í því. Ég viðurkenni að þau geti hugsanlega ekki verið stór fyrsta kastið en samt er mjög mikilvægt að reyna það sem hægt er til að bæta við framlögum í Kvikmyndasjóð Íslands. Það mun skapa störf í samfélaginu og það er mikilvægt að við nýtum slík tækifæri.

Menntamálanefnd vekur athygli á því að framlög til verkefnisins „Tónlist fyrir alla“ höfðu verið felld niður í fjárlagafrumvarpinu. Við fögnum þeim áformum sem koma frá fjárlaganefnd um að setja viðbótarframlög í það verkefni. Ég vil sömuleiðis láta þess getið að menntamálanefnd mun standa sameiginlega að þingsályktunartillögu um að gerð verði fagleg úttekt á starfi æskulýðssamtakanna í landinu til að ganga úr skugga um að þar sé gætt jafnræðis milli einstakra aðila sem starfa að þeim mikilvæga málaflokki. Vænti ég þess að sú tillaga verði lögð fram á þinginu á næstu dögum.

Víkur þá sögunni að hinum svokölluðu safnliðum, mér liggur við að segja hinum alræmdu safnliðum sem fjölmargir þingmenn hafa að vonum gagnrýnt hér á liðnum árum. Alls bárust nefndinni 138 umsóknir um fjárveitingar af safnliðum og komu 49 umsækjendur á fundi nefndarinnar. Meiri hluti nefndarinnar áréttar það sem reyndar hefur komið fram í áliti menntamálanefndar áður að nauðsynlegt er að fyrirkomulag við úthlutun fjárveitinga af þessum safnliðum verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Þó að ég hafi samúð með því sjónarmiði að þetta séu ekki nein ný sannindi heldur sjónarmið sem hafi heyrst áður í þessum þingsal get ég upplýst að ég finn fyrir miklum þverpólitískum stuðningi í menntamálanefnd við að þetta vinnulag verði nú viðhaft í nefndinni í síðasta sinn. Tel ég að sömu sjónarmið ráði ríkjum í fjárlaganefnd miðað við það sem ég hef heyrt frá formanni nefndarinnar. Ég skora á okkur öll að tryggja það strax þegar þing kemur saman að loknum hátíðunum að hefja markvissan undirbúning að því að þróa fyrirkomulag sem kemur þessum safnliðasirkus endanlega á öskuhauga sögunnar. Ég tel að á okkur hvíli sú skylda að við setjum upp fyrirkomulag sem er faglegt, þar sem við nýtum þá fagþekkingu sem býr t.d. í mennta- og menningarmálageiranum. Við eigum vel nothæf fordæmi og fyrirmyndir. Ég nefni t.d. það skipulag sem hefur verið komið upp hjá Rannsóknasjóði Íslands við að meta umsóknir faglega og koma með tillögur um úthlutun þeirra. Við þurfum ekki að líta miklu lengra til að finna gagnlegar fyrirmyndir sem við getum notað.

Varðandi safnliðina varð að vonum mikill niðurskurður á framlögum til þeirra, um 42% milli ára, og því ljóst að lagt er til að einungis lítill hluti umsókna fái fjárveitingar. Rétt er að það komi fram í ljósi orða minna um róttæka uppstokkun á þessu fyrirkomulagi að þegar menntamálanefnd kemur að þessu verki var að sjálfsögðu þegar búið að auglýsa eftir umsóknum, þær höfðu borist í hús og ljóst að öll vinna við endurskoðun þessa fyrirkomulags þarf að miðast við það fjárlagaár sem við hefjum vinnu við á næsta ári.

Við mat á umsóknum lagði nefndin sérstaka áherslu á að styrkja verkefni sem stuðla að menntun og menningariðkun barna og unglinga, nýsköpun, verkefni sem eru ætluð almenningi, verkefni sem skapa atvinnutækifæri eða ýta undir verðmætasköpun. Sömuleiðis var horft til þess hversu mikilvægt framlag Alþingis væri fyrir framgang verkefnisins og jafnframt hvort framlagið væri forsenda fyrir öðrum styrkjum.

Umsóknir um nokkur verkefni voru það viðurhlutamiklar að við ákváðum að vísa þeim beint til fjárlaganefndar. Að lokum leggur nefndin áherslu á að í framtíðinni þurfi að móta stefnu um það á hvaða forsendum eigi að meta umsóknir um rekstrarstyrki til félagasamtaka. Það er skoðun meiri hluta nefndarinnar að leggja eigi höfuðáherslu á verkefnastyrki fremur en styrki til almenns rekstrar, en umsóknir fylla vitanlega báða flokka og ljóst að þarna þarf að móta stefnu sem heldur vatni.

Ég læt þetta duga við yfirferð á áliti meiri hluta menntamálanefndar og þakka fyrir þrátt fyrir allt þá góðu vinnu sem nefndin lagði í þetta verkefni.