139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni menntamálanefndar, Skúla Helgasyni, fyrir yfirgripsmikla ræðu í samræmi við nefndarálitið. Það er rétt að geta þess að við sjálfstæðismenn erum flutningsmenn að meirihlutaálitinu. Það sýnir að við höfum reynt að koma að verkum sem okkur þykir skipta máli og erum ekki að reyna að búa til ágreining. Við vorum meira og minna sammála því sem þarna var dregið fram, þó gefur að skilja að af og til er áherslumunur.

Ég vil spyrja hv. formann menntamálanefndar að nokkrum hlutum. Í fyrsta lagi Háskóli Íslands, það er ekki gert ráð fyrir 1.200 nemendum í fjárlagafrumvarpinu. Upphaflega var það 1.400. Það bætist við milli 1. og 2. umr. 200 nemendaígildi. Hvernig telur hv. þingmaður að Háskóli Íslands eigi að brúa þetta? Það er um tvennt að ræða að mínu mati. Við erum að tala um að Háskóli Íslands þjappi, þá á bara að segja það, á kostnað gæða. Ef menn segja að við ætlum að passa upp á gæðin, þá þarf að segja það að það þurfi að takmarka aðganginn að Háskóla Íslands. Því meiri þjöppun þýðir að Háskóli Íslands getur ekki sinnt þjónustu og kröfum sem gerðar eru til hans fyrir sömu fjárhæð. Ég vil gjarnan fá álit hv. þingmanns á þessu.

Líka vildi ég fá álit hv. þingmanns á sameiningu háskóla. Hvort ekki sé tækifæri til þess að taka þau skref að sameina háskóla. Ég fagna því sem hæstv. menntamálaráðherra hefur gert vel að mínu mati að taka markviss skref í gegnum samstarfsnetið, en betur má ef duga skal. Ég held að við eigum að reyna að setja markið á marktækar sameiningar þannig að við getum gefið okkur tíma, ekki síst í ljósi þess að óvissa getur ríkt m.a. hjá starfsfólki eins og við sjáum í öðrum stofnunum ef það á að hrófla til, ég nefni St. Jósefsspítala hvað það varðar.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann varðandi kvikmyndagerðina og vonbrigðin sem eru í mínu hjarta sem hans, greini ég, varðandi niðurskurð til kvikmyndagerðar. Hvort hann taki (Forseti hringir.) ekki undir með mér að það hafi verið vanhugsuð aðgerð að skera niður í kvikmyndagerðinni. Það er búið að taka áratugi að byggja upp (Forseti hringir.) þessa listgrein, sem markar þjóðarbúinu markvissar tekjur.