139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka formanni menntamálanefndar góð svör. Ég get sagt það strax að ég deili skoðunum hans hvað varðar Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Þar mætti vera meiri samvinna og reyna að sjá hvað hægt er að samþætta þar.

Ég undirstrika skoðun okkar sjálfstæðismanna að í tillögum okkar í efnahagsaðgerðum leggjum við sérstaka áherslu á að það ber að hlífa menntakerfinu. Það ber að hlífa rannsóknum, vísindum og nýsköpuninni. Af hverju erum við að gera það? Ekki af því viljum bara hlífa þessum geira, heldur út af því að það er grundvöllur hagvaxtar. Í Íslandssögunni sjáum við að það bar uppi hagvöxtinn, m.a. það sem við áttum á árunum 1970–1996. Það sama gildir um Finna. Þess vegna ber að leggja áherslu á þessa þætti til þess að við verðum fljótari að komast út úr kreppunni. Þess vegna bendum við á reynslu annarra landa og okkar eigin að það beri sérstaklega að huga að þessum þáttum þannig að hagvöxturinn verði fljótari upp.