139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:25]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili skoðunum þingmannsins að það þurfi að efla Alþingi, en Alþingi þarf líka að þekkja sín takmörk. Ég tel t.d. að eitt mikilvægasta verkefni og aðgerð Alþingis á undanförnum mánuðum hafi verið að samþykkja að sett yrði á fót stjórnlagaþing. Við höfum sýnt ákveðið þroskamerki í því að framselja vald sem var og er betur komið hjá þjóðinni í ljósi biturrar reynslu af tilraunum til þess að endurskoða stjórnarskrána með pólitísku valdi.

Varðandi safnliðina þá tel ég einfaldlega að það séu aðrir aðilar í samfélaginu hæfari en við þingmenn til þess að taka ákvarðanir með hvaða hætti eigi að útdeila styrkjum til fræðslu og menningarstarfsemi í landinu. Þar eigum við líka að hafa vit til þess að stíga til hliðar og láta þá sem betur þekkja til sjá um (Forseti hringir.) slíkar ákvarðanir.