139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:26]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem mér hefur fundist einkenna vinnu við fjárlagagerðina í ár er skammsýni. Það hefur skort að við horfum fram á við og setjum okkur markmið. Við tölum mikið um að verja hitt og verja þetta en við tölum hins vegar minna um það hvernig við ætlum að sækja fram. Háskóli Íslands setti sér það markmið að vera meðal topp 100 í Evrópu. Ég vildi gjarnan spyrja í framhaldi af því sem kemur fram í nefndaráliti 2. minni hluta og kom einnig fram í svari hv. þm. Skúla Helgasonar við fyrirspurn hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um sameiningar háskóla. Ef við setjum okkur þau skýru markmið að við séum með háskóla sem væri meðal topp 10 í Evrópu í lífvísindum, jarðvísindum, skapandi greinum og upplýsingatækni, ef við settum okkur markmið að við mundum vilja vera með duglegustu börnin í skólanum, alla vega meðal þeirra duglegustu samkvæmt PISA, og að það væri tryggt að það væri skólastarf á landsvísu, hvernig í ósköpunum ættum við að ná þeim markmiðum miðað við það sem við sjáum núna? Miðað við það sem kemur hérna fram, þar sem aðeins er horft til eins árs í senn, erum við ekki að setja okkur nein markmið til framtíðar.

Við tölum um samstarf en erum ekki tilbúin að taka ákvarðanir sem skila okkur meiri árangri, eins og sameiningu háskóla. Ég vil gjarnan spyrja þingmanninn enn á ný: Hvernig sér hann það fyrir sér að fara í þessar sameiningar háskóla? Er hann fyrst og fremst að horfa á að sameina háskóla hér á höfuðborgarsvæðinu eða kæmi til greina að vera með þrjá háskóla? Kemur til greina að mati þingmannsins að fara í styttingu á námi til stúdentsprófs? Kemur til greina að fara í breytingar á kjarasamningum kennara og lögum er varða skólana? Hvernig (Forseti hringir.) væri betur hægt að tryggja samstarf ríkis og sveitarfélaga?

Ég teldi það brýnt að við tækjum þetta (Forseti hringir.) og ræddum frekar innan menntamálanefndar. Ég efast að þingmaðurinn geti svarað mér fyllilega á þremur mínútum.