139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[21:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni ágæta ræðu, hann kom inn á marga þætti. Ég ætla að tengja við það síðasta sem hann talaði um að það væri alveg skýrt hvað framsóknarmenn vildu í þessum málum. Ég verð að segja að eftir ræðu hans, sem mér fannst nokkuð skýr, spyr maður sig að því hver hin raunverulega stefna Framsóknarflokksins sé í heilbrigðismálum og menntamálum. Eftir að hafa hlustað líka á hv. þm. Höskuld Þór Þórhallsson þar sem hann talaði um að hann vildi alls ekki einkarekstur í menntakerfinu eða heilbrigðiskerfinu.

Það hefur reyndar komið fram á fundum okkar þingmanna í Suðvesturkjördæmi að afstaða framsóknarmanna í því kjördæmi t.d. gagnvart verkefni eins og PrimaCare í Mosfellsbæ er frekar neikvæð. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort þetta sé sem sagt ný stefna hjá Framsóknarflokknum. Ég minnist þess ekki þegar ég var í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum að hann hafi nokkurn tíma gert athugasemdir við Háskólann í Reykjavík, við að Hvalfjarðargöngin yrðu til að mynda gerð í einkaframkvæmd, við að farið hefði verið af stað með ýmsar aðrar framkvæmdir eins og þegar Keilisverkefninu var ýtt af stað. Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann á móti því að blanda saman einkarekstri og opinberum rekstri ef það er í samfélagslegri þágu? Ég var að nefna Keili í kjördæmi hv. þingmanns. Ég get líka nefnt verkefni sem hefur gengið vel þar sem hið opinbera, þ.e. sveitarfélög hafa komið að, til að mynda Barnaskóli Hjallastefnunnar. Þar er verið að byggja undir samfélagið á grunni einkarekstrarforms.

Ég get ekki skilið framsóknarmenn öðruvísi en svo eftir að hafa hlustað á ræður þeirra að þeir væru orðnir á móti þessu fyrirkomulagi, móti því að nýta kosti einkarekstrarins til þess að byggja upp samfélagsþjónustuna. Ég bið hv. þingmann þá að leiðrétta mig ef það er einhver stefnubreyting af hálfu framsóknarmanna.