139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega deili ég áhyggjum mínum af hag sveitarfélaganna með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni. Vandi þeirra er í mörgum tilvikum enn verri en ríkisvaldsins þegar kemur að fjárlagagerð heima í héraði. Ég tel vera komið að mörkum þess að heimta skatta af þeim. Auðvitað eru sveitarfélögin fórnarlömb skattahækkana að jöfnum hlut og skattarnir hækka yfir fólk og fyrirtæki. Auðvitað ber að leiðrétta skattheimtuna um leið og tækifæri gefst. Það hefur einmitt verið vandinn í okkar samfélagi að við leggjum á tímabundna skatta sem reynast svo ótímabundnir þrátt fyrir breyttar aðstæður. Þessu ber að breyta og skattkerfið er einu sinni mannanna verk. Það er hægt að breyta því á hverjum tíma en hefur ekki verið gert. Skattar á Íslandi hafa virkað eins og lögmál og endað uppi eins og nátttröll.