139. löggjafarþing — 44. fundur,  8. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[23:00]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir þetta innlegg í umræðuna. Ég gat þess í ræðu minni að það væri mikilvægt að breikka skattstofnana. Það er líka mikilvægt að breikka skattinn sjálfan ef svo má að orði komast. Mér finnst skattkerfið oft á tíðum miða að því að taka mest af þessari dæmigerðu millistétt. Af fólki sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og af fólki sem er að eignast börn. Skattkerfið beinist sum sé að þægilegasta hópnum, auðveldasta vasanum. Svona hefur mér sýnst kerfið hafa verið um langt árabil. Skattkerfinu er hægt að beita með margvíslegum öðrum hætti gagnvart fyrirtækjum og fólki. Af hverju er sama skatthlutfall af ofurbónuslaunagreiðslum og að þiggja laun fyrir að afgreiða kjötfars í búð?