139. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan hneykslast hv. þingmenn stjórnarliðsins á því hvers lags upphæðir við erum að tala um, yfir 70 milljarðar kr. sem ríkið þarf að greiða í vexti, um leið og blessunarlega var komið í veg fyrir að algerlega óásættanlegir samningar vegna Icesave yrðu að lögum, samningar sem hefðu kostað okkur ríflega 40 milljarða kr. á ári og væru orðnir yfir 80 milljarðar kr. í dag. Hver væri þá staða ríkissjóðs? Ég spyr að því. Blessunarlega var komið í veg fyrir það. En mér sýnist, því miður, sem sömu vinnubrögðin haldi áfram. Mér hafa verið afhentar fréttir af mbl.is, heilar tvær, þar sem greinilegt er að almenningur sem er núna heima hjá sér að lesa mbl.is veit miklu meira um þetta Icesave-samkomulag en sá þingheimur sem hér er. Þessi vinnubrögð eru (Forseti hringir.) ekki til eftirbreytni.