139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

menningar- og heilsutengd ferðaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu.

207. mál
[11:08]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þeir aðilar sem eru að vinna að uppbyggingu menningartengdrar og heilsutengdrar ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu geta sótt styrki til t.d. Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Má þar nefna að í Átak til atvinnusköpunar hefur töluvert verið sótt af ferðaþjónustufyrirtækjum. Sömuleiðis hafa ferðaþjónustufyrirtæki nýtt sér starfsorkufyrirkomulagið sem er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Ferðamálastofa hefur veitt styrki til úrbóta á ferðamannastöðum, eins og hv. þingmaður kom inn á, árlega frá 1994. Meðal þeirra verkefna sem hlotið hafa stuðning eru framkvæmdir á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu. Á síðustu árum hefur um 50 millj. kr. verið úthlutað árlega. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur ekki verið litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum. Verkefni á höfuðborgarsvæðinu hafa verið styrkt þannig að það er ekki rétt sem hv. þingmaður fullyrðir hér, að þau séu algjörlega sniðgengin. Þess skal þó getið að umsóknir af höfuðborgarsvæðinu eru mun færri en af landsbyggðinni þannig að þetta er nokkuð sem við þurfum að skoða.

Virðulegi forseti. Þarna eru litlir styrkir á ferðinni. Ég held að það svari spurningu hv. þingmanns skýrt hvað varðar hug þessarar ríkisstjórnar að núna liggur fyrir í þinginu sem á eftir að mæla fyrir frumvarp til laga um nýjan sjóð sem heitir Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Hann verður stór, það er ætlað að a.m.k. 240 millj. kr. verði í honum árlega og honum er ætlað að ráðast í uppbyggingu ferðamannastaða um allt landið, jafnt á höfuðborgarsvæði sem landsbyggð, til að við getum bæði dreift ferðamönnum betur yfir árið og betur yfir landið, allt til þess að vernda náttúru og líka til að auðga upplifun ferðamanna sem hingað koma. Það er algjörlega klárt mál að þar verður ekki gerður neinn greinarmunur á staðsetningu eða landsbyggð andspænis höfuðborg heldur eingöngu byggt á faglegu mati á verkefnunum sjálfum.

Á höfuðborgarsvæðinu býðst frumkvöðlum einnig stuðningur á frumkvöðlasetrum sem rekin eru ýmist af eða með aðkomu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þá verðum við líka að nefna að mjög margar konur hafa notið stuðnings af frumkvöðlanáminu Brautargengi sem haldið er á höfuðborgarsvæðinu tvisvar á ári. En það verður að segjast alveg eins og er, og við skulum segja hlutina eins og þeir eru, að það eru mun fjölbreyttari styrkir í boði á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu enda hefur lengi verið til þess horft að á höfuðborgarsvæðinu njóti menn stærðar svæðisins og nálægðarinnar við markaðinn. Ég tel að mjög margt í þeim forsendum hafi breyst og þess vegna verðum við að horfa til höfuðborgarsvæðisins. Það á ekki bara við um ferðaþjónustuna heldur líka mjög margt annað í stuðningi við atvinnulíf og sprota. Við erum að skoða með hvaða hætti við getum speglað stoðkerfið sem er á landsbyggðinni yfir á höfuðborgarsvæðið. Sá stuðningur felst ekki síst í hinum þekktu vaxtarsamningum sem reynast gríðarlega vel í landsbyggðarkjördæmunum. Svo er líka sjóður á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar sem eingöngu er ætlaður til landsbyggðarinnar eins og Framtak, Skrefi framar, Frumkvöðlastuðningur og Krásir.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það má hugsanlega samhæfa kerfið betur og taka höfuðborgarsvæðið inn sem aðila sem er meðhöndlaður með sama hætti og landsbyggðarkjördæmin.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom inn á mál sem hún sagði að ég talaði oft um en ég verð þá líka að nefna hér að ýmislegt er gert í iðnaðarráðuneytinu. Að lokum verð ég nefnilega að nefna mjög umfangsmikið starf sem iðnaðarráðuneytið hefur ráðist í og unnið að síðasta árið sem er uppbygging á heilsuferðaþjónustu frá haustinu 2009. Í janúar 2010, þ.e. á þessu ári, voru klasasamtökin Heilsulandið Ísland stofnuð og það var nýlega gerður samningur um 3 millj. kr. árlegt framlag til þriggja ára af hálfu iðnaðarráðuneytisins til samtakanna til að þróa þessa vöru áfram. Ferðamálastofa hýsir verkefnið og leggur samtökunum til hálfan starfsmann. Nú þegar hefur verkefnið farið það vel af stað að ég setti af stað og óskaði eftir því að menn gætu sótt í að fá viðurkenningu fyrir bestu fyrstu verkefni undir yfirskriftinni Heilsulandið Ísland. Skemmst er frá því að segja að 23 góð verkefni sóttust eftir að fá þessa viðurkenningu (Forseti hringir.) sem fjárframlag fylgir. Það þurfa a.m.k. þrjú fyrirtæki að koma að hverju verkefni þannig að þarna er sannarlega eftirspurn sem við náum vonandi að svara með þessu nýja fyrirkomulagi.