139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

störf þingsins.

[11:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mér finnst tilhlýðilegt á þessum endaspretti í þinginu, nú þegar við sem erum til þess að gera ný og erum að reyna að læra af því hvernig þingið vinnur — kannski er það þannig að við sem komum ný að þessu sjáum fyrr hvað er að en þeir sem lengst hafa verið. Ég starfaði líka í þingmannanefndinni í sumar og við fjölluðum bæði um störf þings og stjórnsýslu og ég held að það sé nauðsynlegt að við veltum því fyrir okkur á síðustu dögunum, þegar við vitum eiginlega vart hvaða fjárlagafrumvarp við erum að fara að samþykkja á fimmtudaginn og fara í 3. umr. um á morgun, hvað þessi vinnubrögð eru óásættanleg. Það gengur heldur ekki, frú forseti, að stefnumörkun í einstökum málum birtist fyrst í fjárlagafrumvarpinu í nóvember og síðan fari krampakennd umræða fram í samfélaginu eins og til að mynda hefur verið um niðurskurð á heilbrigðissviði. Það hlýtur að þurfa lengri og yfirgripsmeiri umræðu um þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin stendur fyrir.

Í stuttum umræðum í gær sagði hæstv. heilbrigðisráðherra að það væri ekki á döfinni að lýsa því yfir að það ætti að snúa af þeirri stefnu sem birtist í fyrstu drögum að niðurskurðinum, þ.e. sú stefna heldur áfram þó að það sé búið að draga í land í fjárlagafrumvarpinu og væntanlega í þeirri niðurstöðu sem kemur inn í þingið á morgun. Þó vitum við það ekki, það eru fregnir um að verið sé að breyta því enn meira. Þessi vinnubrögð eru óásættanleg, við þurfum miklu vandaðri vinnu. Fjárlagafrumvarpið hlýtur að þurfa að koma miklu fyrr inn í þingið og við þurfum að vera búin að ljúka því helst fyrir desember og stefnumarkanir í stórum málum hljóta að þurfa að hafa fengið ítarlega umfjöllun (Forseti hringir.) í málefnanefndum þingsins á öllum sviðum löngu áður en það birtist í fjárlagafrumvarpinu.