139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

birting upplýsinga í ævisögu -- leiðrétting ummæla --samspil menntamála og atvinnumála o.fl.

[11:47]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn og fyrir að vekja máls á þessum málaflokki, sérstaklega varðandi þau viðræðuslit sem hann nefndi, að ekki skyldi hafa náðst samkomulag við lífeyrissjóðina eins og stefnt var að. Til stóð að þeir kæmu að þeim vegaframkvæmdum sem boðaðar hafa verið á suðvesturhorninu og Suðurlandi. Það voru vissulega vonbrigði hversu erfiðlega gekk að fá lífeyrissjóðina inn í það verk með okkur því að við ætluðum lífeyrissjóðunum að taka þátt í endurreisninni að hluta til með því að leggja fé til framkvæmda eins og þessar vegaframkvæmdir voru hugsaðar.

Það er reyndar ekkert í lögunum um þessar framkvæmdir sem voru samþykktar á Alþingi í fyrravor sem kveður á um að lífeyrissjóðirnir þurfi að vera þeir aðilar sem fjármagni þessi verk. Vissulega bundum við vonir við það en upp úr því slitnaði af hálfu lífeyrissjóðanna. Þeir voru ekki tilbúnir til að bjóða þau kjör sem við þurftum á að halda til að geta farið í þessar framkvæmdir og lífeyrissjóðirnir verða að útskýra fyrir fólkinu í landinu hvers vegna þeir vilja halda uppi vöxtum miðað við þau boð sem þeir buðu okkur til að fjármagna þessar framkvæmdir og þá hvers vegna þeir virðast vera tilbúnir til að standa í vegi fyrir að slíkar framkvæmdir fari af stað. En það mun þeim hins vegar ekki takast. Því hefur verið lýst yfir og við það verður staðið að í þessar framkvæmdir verður farið.

Varðandi aðrar framkvæmdir á landinu mun losna um opinbert fé sem annars hefði farið í framkvæmdir á þessu svæði hér þar sem við munum ráðast í stærri framkvæmdir á Suðurlandi, Reykjanesi og víðar. Auðvitað mun þá losna um það fé sem annars hefði farið hingað til að sinna vegaframkvæmdum annars staðar á landinu og líka þeim samgönguminjum sem við sitjum uppi með. Við getum spurt okkur líka hvers vegna við sitjum uppi með samgönguminjar eftir öll þessi ár þegar við áttum gnótt fjár í vösum okkar og í ríkissjóði til að sinna innviðum samfélagsins, m.a. til að bæta samgöngukerfið. (Forseti hringir.) Af hverju sitjum við uppi með heilu landsfjórðungana sem hv. þingmaður benti réttilega á að geyma þessar samgönguminjar sem við þurfum svo sannarlega að fara að sinna þegar við fáum til þess tækifæri?