139. löggjafarþing — 47. fundur,  14. des. 2010.

framtíð íslensks háskólasamfélags.

[13:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Kjörorð Verkamannaflokksins og Tonys Blairs fyrir kosningarnar 1997 þar sem þeir unnu stórsigur var þríþætt: menntun, menntun, menntun. Það nákvæmlega á sama við í dag fyrir íslenskt háskóla- og vísindasamfélag sem við þurfum að tileinka okkur, þá önnur þrjú orð sem eiga að gilda fyrir íslenskt rannsókna-, vísinda- og háskólasamfélag: gæði, gæði, gæði. Þannig eigum við að hugsa um þetta, gæði kennslu, gæði í rannsóknum og gæði í vísindum, gæði á samkeppnisgrundvelli frá vísinda- og rannsóknasjóðunum.

Ég tel mikilvægt að Vísinda- og tækniráð fylgi eftir þeirri stefnumörkun sem það samþykkti síðast, að gera úttekt á öllum rannsókna- og vísindasjóðum þannig að það sé einfaldlega úthlutað á grundvelli bestu rannsókna, bestu umsókna. Mér þykir miður að sjá fram á lækkun í fjárlagafrumvarpinu til háskóla og vísinda. Þingmenn allir eiga að sameinast um að styðja sem best við bakið á hæstv. menntamálaráðherra, alveg eins og hæstv. fjármálaráðherra verður að gera líka.

Við sjálfstæðismenn teljum það ranga forgangsröðun að lækka framlög til háskólamála, menntakerfisins og vísindamála á akkúrat þessum tímum. Við erum að læra og eigum að líta til reynslu annarra þjóða. Við þurfum að koma okkur sem fyrst út úr kreppunni og það gerum við m.a. með því að ýta undir hagvöxt. Við ýtum undir hagvöxt með því að hafa öflugt mennta- og vísindakerfi. Þess vegna á ekki að ganga svona hart að menntakerfinu og vísindakerfinu eins og nú er verið að gera.

Ég hvet eindregið hæstv. ráðherra til að halda áfram þessu djúpa og mikla samstarfi, ýta undir það meðal opinberu skólanna og helst kysi ég að einkaskólarnir gætu líka hagnýtt sér það kerfi sem er verið að byggja upp. Ég vil ganga skrefinu lengra. Við erum búin að fara í gegnum tvær mjög stórar sameiningar, Tækniháskólans og HR á sínum tíma og síðan Kennaraháskólans og HÍ. Þær sameiningar hafa gengið vel og við eigum að halda áfram. Það gengur ekki að héraðshöfðingjar allra landsmanna, hvort sem þeir eru á landsbyggðinni eða á suðvesturhorninu, (Forseti hringir.) sjái ekki heildarmyndina. Stóra myndin er sú að við eigum að sameinast um það, þó að okkur greini á um einhverja hluti, að halda áfram að efla háskóla og vísindastofnanir. (Forseti hringir.)