139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:09]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Herra forseti. Við tökum til lokaumræðu frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011. Á það hefur verið bent og reyndar nokkuð rætt og gagnrýnt að töluverðar, jafnvel miklar, breytingar hafi farið fram á fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram fyrir allnokkrum vikum, nú í haust, og sumir ganga reyndar svo langt að segja að þessu fjárlagafrumvarpi hafi verið hafnað, alltént kollvarpað. Ég tek í sjálfu sér undir það, herra forseti, að þessu fjárlagafrumvarpi hafi verið breytt og það mikið. Það er vel og það ber vitni um ný vinnubrögð á þingi, að þingið er í reynd komið til starfa, hefur einhver völd og getur breytt framlögðu fjárlagafrumvarpi. Það var ekki sjálfgefið á árum áður að þingheimur gæti breytt fjárlagafrumvarpi en nú er það gert, ekki einungis með tillögugerð stjórnarandstöðunnar heldur og með margvíslegri tillögugerð stjórnarliða sem var næsta óþekkt hér um langt árabil þegar tími hinna stóru og sterku foringja var slíkur að menn þögðu jafnan úti í horni þegar skattarnir komu úr þeirri áttinni. Tímarnir eru breyttir. Alþingi er að taka til valda og er hér að breyta framlögðu fjárlagafrumvarpi, það sem ég vildi kannski fremur segja er að það er að bæta það. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að svo sé því að margt mátti færa til betri vegar og hefur nú verið komið til móts við langflestar þær gagnrýnisraddir sem létu hæst í sér heyra hér á fyrri vikum þessa vetrar.

Herra forseti. Ég benti á það í ræðu minni um fjárlög og fjárlagafrumvarp fyrr á þessum vetri að endar næðu ekki saman. Við erum að eyða um efni fram. Rétt eins og á hverju heimili foreldra og fólks þarf að laga það. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að jafnt sjálfstæðismenn, framsóknarmenn, liðsmenn Samfylkingar og Vinstri grænna séu sammála um að stefna beri að sjálfbærni í ríkisbúskapnum árið 2013 eins og efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gengur út á. Það er í sjálfu sér ánægjulegt að fólk sé yfirleitt sammála um þá leið. Hún er afskaplega brýn og mikilvæg, að við stefnum að því að við rekum ríkissjóð án halla árið 2013. Það er að takast.

Það er ljóst af þessum fjárlögum sem nú eru sett fram að við förum að ná frumjöfnuði í þessum búskap, og sjálfbærni árið 2013 ef allt gengur eftir. Mörg teikn eru á lofti í þá veru að það sé að takast. Það er vel. Frumforsenda fjárlagagerðarinnar er að við náum endum saman og ánægjulegt, eins og ég gat um, að jafnt stjórnarandstaða sem stjórnarliðar séu sammála um þá leið.

Þær breytingar sem gerðar hafa verið á þessu fjárlagafrumvarpi eru verulegar og nema á annan tug milljarða. Við 2. umr. voru teknir fyrir allnokkrir milljarðar til endurbóta á fjárlagafrumvarpinu og endurbæturnar nú að þessu sinni á milli 2. og 3. umr. nema á tíunda milljarð, en stærsta talan þar er vissulega 6 milljarða kr. vaxtaniðurfærsla sem kemur í sjálfu sér ekki inn í bókhald ríkisins á endanum heldur er greitt af þar til bærum fjármálastofnunum þótt það fari að vísu fyrst í gegnum vaxtabótakerfið. Það er önnur saga.

Ég lít svo á að þær endurbætur sem fram hafa farið á þessu fjárlagafrumvarpi séu fyrst og fremst til jafnaðar. Það er vel. Þær koma fyrst og fremst til góða fólki sem býr við lítil efni. Það jafnar ekki einasta kjör á milli hálaunafólks og láglaunafólks, heldur og jafnar það lífsskilyrði í landinu öllu. Mun ég nú koma inn á þau atriði.

Við sjáum að skattkerfið hefur tekið breytingum. Tekjuöflunarkerfi okkar hefur breyst með þeim hætti að láglaunahópar koma betur undan þeim breytingum en aðrir. Hjón sem eru með ráðstöfunartekjur upp undir 500 þús. kr. á mánuði greiða nú lægri skatta sem nemur um 2,5% en áður var. Þetta er vel. Ég vil líka geta þess að það er mjög til jafnaðar að koma til móts við allra tekjulægstu hópana í formi verðbóta á grunnlífeyri til handa elli- og örorkulífeyrisþegum. Hér er verið að bæta í 350 millj. kr. sem leggjast á strípaðar bætur, 180 þús. kr. og minna. Það er ánægjulegt að geta tekið þátt í því að koma til móts við þennan hóp fólks sem hefur kannski úr minnstu að spila fyrir þau jól sem nú eru fram undan í lífi okkar Íslendinga og fleiri þjóða.

Það er einnig gleðilegt að geta tekið þátt í breytingu er varðar Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem 180 millj. kr. er varið til veikindadaga þannig að fólk í atvinnuleit geti tekið sér að hámarki fimm veikindadaga og búið þannig við eitthvað í námunda við þann rétt sem fólk hefur úti á vinnumarkaði. Auk þess er þar tekið á hlutaatvinnuleysi og komið fyrr til móts við þá sem eru mjög lengi atvinnulausir. Það er því miður allstór hópur fólks. Þótt atvinnuleysi hafi minnkað á undanliðnum árum megum við aldrei gleyma því að 4.500 manns hafa samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar verið án atvinnu í meira en 12 mánuði, þar af samkvæmt nýjustu tölum hafa einir 1.900 Íslendingar verið án atvinnu í þrjú ár. Þess vegna er verið að bregðast við þessum hópi fólks og koma inn með fjórða árið í atvinnuleysisbótum fyrr en stóð til, 1. mars í stað 1. maí. Þetta kostar peninga og þeir eru fram réttir í þeim breytingum sem hér er fjallað um í fjárlagafrumvarpi. Þetta er vel.

Mest um verð er vaxtaniðurgreiðslan upp á eina 6 milljarða kr. og útskýrir að mestum hluta þá 9 milljarða kr. leiðréttingu á þessu fjárlagafrumvarpi sem ég gat um áðan. Hér er um mikla pólitíska ákvörðun að ræða sem er mjög til bóta fyrir breiðan hóp fólks hringinn í kringum landið, ekki síst barnafólks sem er að koma sér þaki yfir höfuðið og ætti vel að njóta þeirra 6 milljarða kr. sem hér eru settir fram til að greiða niður vexti. Þetta er stór pólitísk ákvörðun og enn eitt dæmi til jafnaðar í þeim breytingum sem nú eru gerðar á fjárlagafrumvarpinu.

Herra forseti. Ég ítreka að langflestar ef ekki allar þær breytingar sem er verið að gera á þessu fjárlagafrumvarpi og varða allmarga milljarða króna eru til jafnaðar í samfélaginu, ekki einungis á milli tekjuhópa heldur einnig á milli hópa fólks á landinu, allt eftir því hvar þeir búa. Þetta er vel. Vil ég sérstaklega geta þeirra leiða þar sem komið er til móts við fólk á köldum svæðum landsins, en það er upp á einar 140 millj. kr. til að orkukostnaður fari ekki fram úr hófi.

Það er mikilvægt að halda því til haga í þessum lið, herra forseti, að hér er um afskaplega brýnt hagsmunamál að ræða sem því miður hefur farið leynt og lágt í umræðunni lengi vel, enda er kannski þessi hópur fólks sem býr á köldum svæðum landsins ekki háværasti hópurinn í íslenskum efnahagsaðstæðum hverju sinni. Við skulum halda því til haga í þessari umræðu að orkukostnaður venjulegs fólks á köldum svæðum getur verið allt að þrefalt hærri en hjá því fólki sem býr við bestu aðstæður hvað orkukostnað snertir. Þetta er gríðarlegur munur á nauðsynjum fólks og því eðlilegt og rétt að ríkið komi til móts við þessa hópa. Hér er verið að gera enn betur en verið hefur og leiðrétta þennan mun. Það á að jafna lífsskilyrði fólks hringinn í kringum landið. Aðstæður eru mismunandi, ekki bara hvað samgöngur snertir og þjónustu, heldur líka liði eins og þá sem ég nefni hér og lúta að húshitunarkostnaði.

Herra forseti. Sú megingagnrýni sem fram hefur komið á fjárlagafrumvarpið í öllum umræðum um það snýr að heilbrigðismálum sem er kannski vel skiljanlegt. Sumir vildu líkja fram komnum tillögum í fjárlagafrumvarpinu við aðför að landsbyggðinni og haldnir voru gríðarlega fjölmennir fundir víða um land vegna fram kominna tillagna um kerfisbreytingu á heilbrigðisþjónustu hringinn í kringum landið. Í sjálfu sér var ánægjulegt að sjá hvað almenningur tók vel við sér, lýðræðisvitundin var mjög virk hringinn í kringum landið þegar þessar tillögur komu fram og minnist ég sérstaklega 1.300 manna fundar á Húsavík, í sveitarfélagi sem telur nokkuð undir 5 þús. manns. 1.300 manns mættu á þann fund og höfðu uppi samræmda kröfu um að þessari meintu aðför að heilbrigðisstofnunum væri hrundið.

Í þessum breytingum á fjárlagafrumvarpinu hefur verið komið til móts við þessar gagnrýnisraddir. Það er vel. Vil ég hrósa þeim sem það hafa gert, t.d. með því að fara hringinn í kringum landið og efna til fjölda funda með heimafólki og þeim sem reka viðkomandi sjúkrastofnanir. Að því er mér sýnist hefur náðst þokkaleg sátt um þær leiðir sem nú verða farnar. 40% niðurskurði á sumum sjúkrasviðum og gott betur á viðkvæmum stofnunum er lúta að heilbrigðisöryggi landsmanna hefur verið breytt og aðhaldskrafan færð niður í 12% að mestu fyrst um sinn en nú við 3. umr. niður í 10% er varðar Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki. Þetta er vel. Þetta sýnir vilja til sátta. Þetta sýnir að bæði þing og þjóð geta haft áhrif á fjárlagagerðina og það er vel. Þetta sýnir í rauninni mátt lýðræðisins á hverjum tíma. Það er hægt að breyta hlutunum með samstöðu. Það er hægt að breyta hlutunum með því að skiptast á skoðunum og þetta á jafnt við um þing og þjóð í þessu tilviki. Það er vel.

Ég vil hins vegar geta þess að ég mun ekki taka þátt í að fleyta þessari kerfisbreytingu í heilbrigðismálum yfir á næstu tvö ár, fjárlagaárin 2012 og 2013. Ég hef lagt fram þá bókun í fjárlaganefnd, virðulegur forseti, þar sem ég tel að við fjárlagagerð áranna 2012 og 2013 eigi aðhaldskrafan á sjúkrahúsum hringinn í kringum landið ekki að fara fram úr almennri niðurskurðarkröfu til heilbrigðismála í landinu. Ég tel að stórfelldri kerfisbreytingu verði ekki komið á í heilbrigðismálum á landinu nema á lengra tímabili og með meira og betra samtali við heimamenn en gert var í aðdraganda þessa fjárlagafrumvarps og ég gagnrýndi einmitt. Var reyndar svo um mjög marga fleiri.

Ég tel jafnframt að stórfelld kerfisbreyting á heilbrigðismálum geti ekki gerst nema að uppfylltri þeirri forsendu er lýtur að samgöngubótum og auknu samgönguöryggi, en að þeim forsendum uppfylltum geta menn vissulega tekið til við að breyta heilbrigðiskerfinu að einhverju leyti. Þar nefni ég vissulega aukið samgönguöryggi og auknar samgöngubætur. Við sjáum nýleg Héðinsfjarðargöng. Við sjáum yfirvofandi Vaðlaheiðargöng. Og við sjáum almennt séð aukna hagræðingarmöguleika sem eru fólgnir í bættu samgönguöryggi og er nægilegt að nefna þar Bolungarvíkurgöng. Það er ekki sjálfgefið að sýslumaður sé beggja vegna við þau þegar þau verða komin í fulla notkun. Að þessum forsendum uppfylltum er vissulega hægt að hagræða mikið í heilbrigðiskerfinu og, ef út í það er farið, gera einhvers konar kerfisbreytingu á heilbrigðisþjónustunni í landinu þegar fjarlægðir hafa verið minnkaðar og samgönguöryggi aukið og horfa þar til þess að reka hér tvö fullburða hátæknisjúkrahús í Reykjavík og á Akureyri og vera með eftirmeðferðina á einhvers konar líflæknisdeildum sjúkrahúsanna sem nú eru fyrir hendi heima í héraði.

Þegar kemur að heilbrigðismálunum tel ég hins vegar að því verði ekki hrundið á komandi árum, einkanlega sakir þess að við breytum ekki landakortinu og því síður veðurlaginu, að áfram verði rekin umdæmissjúkrahús á Ísafirði, á Norðfirði og í Vestmannaeyjum. Jafnframt verður að taka sérstakt tillit til svæða sem iðulega lokast af vegna veðurs og þar sem fyrir eru lítil sjúkrahús, einkum með hjúkrunarrúmum, en þó held ég í öllum tilvikum einu bráðarúmi. Þarna horfi ég til staða eins og Patreksfjarðar, Vopnafjarðar og Seyðisfjarðar, allt byggðarlaga sem geta lokast af með stuttum fyrirvara, jafnvel svo dögum skiptir. Við höfum efni á að vera áfram með eitt bráðarúm á þessum stöðum. Kerfisbreytinguna má ekki slíta úr tengslum við íslenskar aðstæður, það má aldrei verða svo. Við getum hagrætt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, en við breytum ekki veðurlaginu.

Herra forseti. Ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem fremst fóru í lagfæringum á heilbrigðisþætti fjárlagafrumvarpsins og nú er svo komið að ríkulega hefur verið komið til móts við allar þær gagnrýnisraddir sem voru viðhafðar um þá þætti.

Ég vil næst koma að vegagerð en forsenda þess að hagræða enn frekar í heilbrigðismálum eins og ég gat um er einmitt að auka þarf þróttinn og fjármagnið til að geta hagrætt í margvíslegri opinberri stjórnsýslu, með bættum vegum, auknu samgönguöryggi og styttri vegalengdum. Það er sérlega ánægjulegt, herra forseti, að horfa til nýsamþykktra aðgerða í vegamálum er lúta að skuldabréfaútboði ríkisins og gefur færi á einum 6 milljarða kr. framkvæmdum á næsta ári og 30–40 milljarða kr. framkvæmdum á næstu árum til mjög brýnna og arðbærra verkefna á suðvesturhorninu og milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna. Hér er um að ræða mjög merkileg verkefni er lúta að auknu samgönguöryggi á suðvesturhorninu, tvöföldun vegar til Árborgar, lúkningu vegarins sem er orðinn tvöfaldur að mestu leyti milli Reykjavíkur og Keflavíkur og tvöföldun hluta vegar um sunnanvert Vesturland. Þetta eru afskaplega mikilvægar aðgerðir, ekki aðeins fyrir íbúa suðvesturhornsins, heldur og íbúa hringinn í kringum landið sem þurfa mjög að sækja þjónustu til suðvesturhornsins.

Þar að auki þakka ég sérlega þeim aðilum sem af mikilli þolinmæði hafa aldrei gefist upp með þær miklu vegabætur sem hljótast af Vaðlaheiðargöngum og styttingu hringvegarins um eina 16 kílómetra milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna, en þau 8 km göng komast í forval jafnvel nú fyrir jól og framkvæmdir geta hafist þegar um mitt næsta ár. Þetta er gríðarlega mikil samgöngubót og leysir af Víkurskarðið sem er veðravíti á veturna og getur lokast með engum fyrirvara. Þetta gefur jafnframt færi á aukinni hagræðingu í opinberri þjónustu með því að tengja betur þau atvinnusvæði sem eru beggja vegna Vaðlaheiðar, á Eyjafjarðarsvæðinu, með sína 25 þús. íbúa og svo þar fyrir austan, á Þingeyjarsvæðinu þar sem allt iðar af orku í jörðu niðri og menn eru farnir að horfa til uppbyggingar, e.t.v. í nokkrum áföngum.

Með þessum hætti getum við komið hjólum atvinnulífsins aftur af stað og endurtek ég þakkir mínar til þeirra sem helst fóru hér fram og náðu að lenda þessari lausn í vegagerð sem að mínu viti er farsæl, einkum á sviði þeirra vega sem eru mest notaðir og fyrir vikið arðbærastir þegar kemur að þessari leið í fjármögnun.

Herra forseti. Ég hef hér staldrað við ýmsa þætti, nú síðast vegagerð og held áfram í samgöngumálum. Það er jafnframt ánægjulegt og enn til marks um þær leiðir til jafnaðar sem eru í þessum breytingum á fjárlögum að aðhaldskrafan hvað flugvellina varðar hefur verið minnkuð úr 300 millj. kr. í 180 millj. kr. og munar mikið um. Sú ríka aðhaldskrafa hefði ella farið út í verðlagið og væntanlega hækkað gjöld flugfarþega sem eru gríðarlega mikil nú sem stendur og í reynd landsbyggðarskattur sem rýrir lífskjör fólks sem þarf mjög að sækja þjónustu til höfuðborgarinnar og lendir á þeim ágæta velli sem Reykjavíkurflugvöllur heitir og fer ekki úr þessu.

Allt leggst þetta á eitt, herra forseti. Þessar breytingar sem ég gat um í upphafi máls míns eru aðallega til jafnaðar eins og þessi stjórn hefur stefnt að, hún er til jafnaðar milli launahópa í landinu, hún er til jafnaðar lífskjara fólks hvar svo sem það býr á landinu og svona á velferðarstjórn að starfa, jafnvel þó að aðstæðurnar séu verri en nokkur ríkisstjórn hefur þurft að búa við í efnahagsumhverfi sínu. Hér hefur verið unnið að margvíslegum breytingum og þær eru til bóta. Ég get tekið undir þær svo að segja allar, en ekki síst þær er lúta að heilbrigðismálum.

Ég vil, herra forseti, að lokum koma inn á menntamálin en þar eins og í öðrum flokkum þessara fjárlaga hefur aðhaldskrafan verið minnkuð til að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi í íslensku samfélagi. Eins og ég gat um í fyrri ræðum mínum um fjárlagafrumvarpið hefur aðhaldskrafan gagnvart Háskóla Íslands verið minnkuð að mun og almennt hefur aðhaldskrafan í menntamálum verið lækkuð um 600 millj. kr. Þeim peningum er að mínu mati vel varið. Nú við 3. umr. er komið í ljós að bætt verður um betur og einnig komið til móts við Háskólann á Akureyri. Ég tek algjörlega undir þær hugmyndir. Þær varða 20 millj. kr. til að það nám sem lýtur að sjávarútvegsfræðum verði ekki einfaldlega lagt niður og hefur verið einn af hornsteinum og hreinlega partur af ímynd Háskólans á Akureyri um langt árabil. Ég vil geta þess, herra forseti, í þessu samhengi að stjórnendur Háskólans á Akureyri hafa gengið á undan með góðu fordæmi í aðhaldi í rekstri á undanliðnum árum og snarbreytt umhverfi hans hvað allan rekstur snertir. Mættu margir forstöðumenn ríkisstofnana taka þann skóla sér til fyrirmyndar þegar kemur að launagreiðslum og öðru er varðar dýrasta þátt rekstrarins hjá opinberum stofnunum. Háskólinn á Akureyri hefur lækkað laun umtalsvert hjá yfirstjórn og kennurum, ekki einu sinni heldur tvisvar, og ætti að vera mörgum öðrum hvatning sem hafa ekki einasta staðið í stað í launakjörum hjá opinberum stofnunum heldur bætt þar í eins og nýlegar tölur sýna.

Hér er verið að koma til móts við háskólaumhverfið og framhaldsskólaumhverfið með 600 millj. kr., nú síðast með 20 millj. kr. til Háskólans á Akureyri. Einnig er reyndar með RES-verkefninu verið að bæta Háskólanum á Akureyri 15 millj. kr. skuld frá Orkuskólanum þar um slóðir og ljúka verkefni hans sem hefur verið þeim skóla nyrðra ákaflega erfitt á undanliðnum vikum og mánuðum. Hefði sá kostnaður hvort eð er lent á ríkinu ef hinn pósturinn hefði verið valinn, þ.e. sá að neita Orkuskólanum um þá fjármuni, þannig að það kemur í sjálfu sér út á eitt.

Hér hef ég nefnt heilbrigðismálin, menntamálin, samgöngumálin, húshitunarmálin og vaxtaniðurgreiðslur. Þetta er til aukins jöfnunar í samfélaginu og það er vel að stjórnin og þingið fari þá leið nú á tímum þegar við erum að endurreisa samfélagið í meiri jöfnuði og meiri sátt milli hópa í landinu.

Herra forseti. Það er engu að síður svo að það ár sem fram undan er í lífi landsmanna er ekki síðasta niðurskurðarárið. Við þurfum að rétta við halla ríkissjóðs sem nemur rösklega 30 milljörðum kr. á því ári sem kemur eftir það fjárlagaár sem hér er til umræðu og ég hef gagnrýnt það mjög að kerfisbreytingum verði flett yfir á þarnæstu ár. Ég vil að þeim verði lógað í umræðunni. Þess vegna er afskaplega brýnt að vöxtur í hagkerfinu aukist. Ég hef tekið undir með sjálfstæðismönnum í þessari umræðu um að skattstofnar verði með öllum ráðum breikkaðir. Það er gríðarlega brýnt fyrir ríkissjóð að fá til sín auknar tekjur, í fyrsta lagi til að þurfa ekki að hækka skatta enn frekar því að þeir eru komnir að endamörkum, bæði hjá fyrirtækjum og fjölskyldum, og í öðru lagi svo að ekki þurfi að skera enn frekar niður hjá hinu opinbera, jafnvel hjá viðkvæmum stofnunum sem nú þegar hafa verið skornar inn að beini.

Þess vegna tel ég það lykilverkefni komandi árs í íslenskri pólitík að benda á og fara þær leiðir sem eru hvað mest atvinnuskapandi hringinn í kringum landið og rétta við hlut fyrirtækja. Norræn velferðarstjórn verður að hafa það í huga, herra forseti, að velferðin verður ekki síst til hjá þeim fyrirtækjum sem útvega Íslendingum atvinnu til að þeir geti greitt skuldir sínar og borgað þann mat sem við á að éta hverju sinni.