139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir andsvarið. Hann spyr: Hvar fáum við töluna um 152 milljarða tekjuöflun ríkissjóðs? Hún kemur fram í fylgiheftinu með fjárlagafrumvarpinu, þar er þetta skrifað niður af fjármálaráðuneytinu, það er ekki flóknara en það.

En veigamesti punkturinn í því sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni er kannski sá þegar hann bendir á að þetta sé mjög hátt hlutfall. Við sjálfstæðismenn höfum nefnilega bent á það hér að það er ekki samasemmerki milli þess að hækka skattprósentur og aukningar á skatttekjum. Það er aðalatriði málsins. Þess vegna viljum við fara aðrar leiðir vegna þess að þegar skattar eru lækkaðir, sérstaklega í svona ástandi, þá munu skattarnir skila sér enn frekar, það er alveg kristaltært.

Gleymum ekki því að þegar sjálfstæðismenn voru í ríkisstjórn og lækkuðu skattprósentuna þá skilaði hærri tala sér í skatta. Hvert var þá aðalumræðuefnið í þingsölum? Þá var hæstv. forsætisráðherra í stjórnarandstöðu og var hún alltaf að rífast við þingmenn Sjálfstæðisflokksins um að þetta hefði ekki verið skattalækkun þó svo að við hefðum lækkað prósentuna vegna þess að tekjurnar urðu hærri, þetta væri því í raun og veru skattahækkun.

Hins vegar getum við verið sammála um að á tímum uppsveiflu er mjög varhugavert og kannski ekki til eftirbreytni að lækka skatta mjög mikið. Menn verða þá líka að skilja það að á þeim tímum sem nú eru, þegar búið er að skattpína þjóðina algjörlega á vonarvöl, verða menn að draga andann og meta líka áhrif skattahækkana og læra af því sem við blasir og kveikja ljósin sem því fylgja.

Ég tel, virðulegi forseti, að skattpíningarstefna ríkisstjórnarinnar sé löngu komin út fyrir öll velsæmismörk.