139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[20:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir því sem hlutirnir verða skrautlegri vekja hin smærri mál náttúrlega minni athygli. Einu sinni hefðu það t.d. þótt gríðarleg tíðindi að lagt væri fram stjórnarfrumvarp í stóru máli eins og spurningunni um aðildina að Evrópusambandinu þar sem fyrir lægi að einn ráðherrann styddi ekki málið.

Þegar þessi mál voru til umræðu haustið 2009 tók ég eftir því að ýmsir þeirra álitsgjafa sem spurðir voru sögðu bara: Þetta er hið nýja Ísland, þetta er hið nýja góða Ísland þar sem flokksaginn ræður ekki. Það er auðvitað algjör útúrsnúningur.

Vitaskuld þarf ríkisstjórn að vera samstæð. Vitaskuld þurfa menn að koma sér saman um einhverja niðurstöðu í stórum málum eins og hefur komið á daginn varðandi fjárlagafrumvarpið þar sem a.m.k. stjórnarliðar sjálfir segjast ekki hafa haft hugmynd um hvað stóð í því. Síðan höfum við séð að það er eiginlega barátta um að búa til nýtt fjárlagafrumvarp fyrir opnum tjöldum sem hefur endað með því að við vitum ekki enn í dag (Forseti hringir.) hversu margir stjórnarliðar munu styðja.