139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[22:38]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig margra spurninga. Kannski fyrst um vegamál og hugmyndir um stórframkvæmdirnar sem samþykktar voru hér á Alþingi með 31:37 samhljóða atkvæðum, þar á meðal greiddu þrír alþingismenn Framsóknarflokksins þessu atkvæði, fimm sátu hjá, enginn var á móti og gerðu frumvarpið að lögum. Þar er gert ráð fyrir því sem ég fór í gegnum í ræðu minni að félögin hefðu leyfi til að byggja þetta, setja það í gang, framkvæma, reka það og innheimta einhvers konar útfærð veggjöld eða notendagjöld til þess að endurgreiða lánin. Já, það er eina leiðin til að gefa í að fara í þessar stórframkvæmdir á þennan hátt. Það verður ekki gert með þeim 5, 6 eða 10 milljörðum sem koma frá ríkissjóði í gegnum fjárlög í hvert skipti í hefðbundnar ríkisframkvæmdir.

Í samgönguáætlun voru ætlaðir 7,5 milljarðar á næsta ári en voru skornir niður í 6. Þeir peningar dreifast um öll kjördæmi landsins. Það þekkir hv. þingmaður sem kemur úr Norðausturkjördæmi. Þeir peningar þyrftu helst allir að fara í Norðvesturkjördæmi, sunnanverða Vestfirði og tengja það svæði ef svo ætti að vera. En þessum 6 milljörðum verður dreift á alla staði landsins vegna þess að alls staðar þarf að gera eitthvað. Ef við ætluðum að fara í þessar stórframkvæmdir með þessum peningum tæki framkvæmdin 20–25 ár. Þannig að svarið, virðulegi forseti, er að það er ekki möguleiki að mínu mati að gera þetta á annan hátt en þennan. Nú er rétti tíminn til að fara í svona framkvæmdir. Ríkið mun fá mjög góð tilboð og það mun auðvitað lækka höfuðstólinn. Ég er sannfærður um að þetta verður allt unnið undir kostnaðaráætlun. Svarið er því nei, það er ekki hægt að gera þetta á annan hátt.

Ég vil bara þakka Framsóknarflokknum kærlega fyrir stuðning við það frumvarp sem ég lagði fram og var gert að lögum og þær hugmyndir sem þar voru vegna þess að þær (Forseti hringir.) eru framsýnar. Það er framsókn í þeim tillögum.