139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[11:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það fjárlagafrumvarp sem hér kemur til atkvæðagreiðslu er eitt mikilvægasta innlegg ríkisstjórnarinnar til að hífa þjóðina upp úr þeirri efnahagslægð sem hún hefur ratað í. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) En því miður hefur henni algjörlega brugðist bogalistin í að setja saman slíkt frumvarp sem gefur fólki von, blæs fólki trú í brjóst um að okkur muni takast á komandi missirum að vinna bug á efnahagsvandanum vegna þess að ríkisstjórnin hefur valið leið skattahækkana, enn og aftur. Í fjáraukalagafrumvarpinu sem við erum nýbúin að afgreiða þurftum við að lækka tekjurnar sem gert hafði verið ráð fyrir að mundu skila sér í ríkiskassann fyrir yfirstandandi ár. Það sama mun gerast á næsta ári, það sýna hagvaxtarspárnar. Við munum í þessari atkvæðagreiðslu leggja fram tillögur um að fara aðra leið, fara leið lágmarksálagningar á fyrirtækin (Forseti hringir.) og heimilin og á sama tíma standa fyrir ábyrgum, nauðsynlegum niðurskurði í ríkisrekstrinum. Við verðum að loka fjárlagagatinu en við verðum að gera það með öðrum hætti en ríkisstjórnin leggur til.