139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það eru ekki nema nokkur missiri síðan ráðherrar Samfylkingarinnar töldu algerlega óviðunandi að blanda saman varnartengdum verkefnum og borgaralegri starfsemi. Þess vegna komum við á sérstakri stofnun, Varnarmálastofnun, að tillögu ráðherra Samfylkingarinnar sem núna berjast fyrir því að sú sama stofnun verði lögð niður og varnartengdum og borgaralegum verkefnum verði hrært saman í eina og sömu skálina. (Gripið fram í.) Við vitum öll sem hér erum að mál þetta snýst um samkomulag ríkisstjórnarflokkanna sem gengur út á það að Vinstri grænir vilja leggja niður stofnunina og Samfylkingin hefur fallist á það en flokkarnir hafa ekki enn þá komið sér saman um hvert verkefnin eigi að fara. Málið er svo einfalt að þetta tengist aðildarumsókninni að Evrópusambandinu. Þetta eru málamiðlanir milli stjórnarflokkanna sem eru enn þá óútfærðar og við erum á síðustu dögum þingsins að veita fjárheimildir og fella niður án þess að ráðherrarnir hafi enn þá getað gert utanríkismálanefnd grein fyrir því hvert verkefnin eiga að fara (Forseti hringir.) og hvað verður um starfsmennina. Þessi stjórnsýsla er algerlega óboðleg (Forseti hringir.) og öllu því fólki sem vinnur á Suðurnesjunum (Forseti hringir.) er haldið í óvissu.