139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu máli sem og flestum öðrum breytir hver dagur óvissu í vissu og við vitum miklu meira núna en fyrir ári. Þetta plagg er óundirritað en við sátum með undirritað plagg fyrir ári. Auk þess höfum við val um að fara í dómsmál núna sem við höfðum ekki þá þannig að við erum í allt annarri og betri stöðu.

Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað sé breytt fyrir utan vextina og lögfræðina í þessu máli. Er þetta ekki efnahagslega sami pakkinn? Hver er áhættan af þessu ef neyðarlögin falla og eitthvað fleira? Kæmi ekki til greina að veita ríkisábyrgð á lán sem innlánstryggingarsjóður tæki hjá Landsbankanum? Landsbankinn er með 400 milljarða kr., allt í erlendri mynt, með undir 1% vöxtum en við erum að borga 3% vexti. Væri ekki skynsamlegra að taka lán í Landsbankanum og borga upp lánið við Breta og Hollendinga?