139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé hafið yfir allan vafa að við höfum heimild til að ganga til samninga um lausn á þessu máli og reyna að leiða það í jörð með þeim skásta hætti sem við teljum í boði, algerlega óháð því að sjálfsögðu hvað ESA gerir eða gerir ekki í tengslum við það. Við höfum að sjálfsögðu allan okkar rétt sem fullvalda ríki til að ljúka deilumálum við aðra, jafnvel þó að það sé á þessu sviði og varði evrópskt regluverk. Ef við vildum velta því eitthvað fyrir okkur hvort við ætlum að láta það hafa áhrif á mat okkar á því hvað sé okkur hagstætt og hvað ekki yrðum við væntanlega líka að svara spurningunni: Erum við tilbúin til að taka af því áhættu og borga það einhverju verði að það hefði fordæmisgildi eða gæti haft áhrif einhvers staðar annars staðar ef þetta mál yrði ekki leyst með samningum heldur færi aðrar leiðir? Hver vill þá borga þann reikning ef hann skyldi koma til? Ég held að mönnum þyki væntanlega alveg nóg um kostnaðinn af því að þurfa að klára þetta og þá áhættu sem því væri samfara að gera það ekki.