139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[15:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að vonandi verður umræðan um þetta mál á rökrænu nótunum. Ég held að það hafi vantað töluvert upp á að menn ræddu málin út frá góðum og gildum rökum síðast og þarsíðast. Reyndar fannst mér hæstv. fjármálaráðherra fikra sig svolítið langt út fyrir þessi hefðbundnu yfirveguðu rök þegar hann líkti Icesave-deilunni við margra áratuga baráttu Ísraela og Palestínumanna til að leggja áherslu á að stundum væri betra að hlutirnir drægjust ekki um of á langinn. Það hljóta að vera töluverð tíðindi í því að formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs haldi því nú fram að Palestínumenn hefðu átt að gefast upp fyrir Ísraelum fyrir mörgum áratugum [Hlátur í þingsal.] til að það mál færi ekki að dragast um of á langinn.

Umræðan um þetta mál undanfarin tvö ár hefur hins vegar oft og tíðum verið til þess fallin að leiða þetta allt á villigötur og því miður hefur það ekki bara komið frá stjórnarliðum í þinginu, heldur mörgum af hinum margumræddu álitsgjöfum og þeim fjölmiðlamönnum sem eru hvað hallastir undir ríkisstjórnina. Þessir menn virðast því miður flestir hverjir ekki hafa kunnað að skammast sín þegar sýnt var fram á hvers lags vitleysismálflutning þeir hefðu viðhaft og hafa sumir jafnvel frekar bætt í en hitt. Það gefur ekki til kynna að við eigum von á sérstaklega góðu hvað varðar umræðu um þetta mál þegar hún hefst fyrir alvöru eftir áramót en vonandi verður þó breyting þar á því að við þurfum á því að halda að fara yfir þetta allt út frá staðreyndum málsins og gera upp hug okkar einfaldlega út frá því hvernig við metum þær. Við höfum nefnilega séð að svo ótalmargt sem haldið var fram á sínum tíma reyndist tóm vitleysa, jafnvel þó að það hafi blasað við þá þegar. Hver man t.d. ekki eftir því að hvað eftir annað var því haldið fram í þessum sal og fjölmiðlum að ef Íslendingar tækju ekki á sig allar þessar kröfur í erlendri mynt mundi gengi krónunnar hrynja? Nú nefna ráðherrar það sérstaklega sem mikinn kost að aðstæður hafi breyst til hins betra og þess vegna sé samningurinn betri, ekki hvað síst vegna þess að gengi krónunnar hafi styrkst. Að sjálfsögðu styrktist gengi krónunnar þegar menn hættu við að taka á sig mörg hundruð milljarða kröfur í erlendri mynt.

Sama með lánshæfismat og skuldatryggingarálag ríkisins. Því var haldið fram hér að allt slíkt færi norður og niður, það yrði algjört hrun í möguleikum íslenska ríkisins á að fjármagna sig svo ekki sé minnst á möguleika hinna ýmsu fyrirtækja. En hvað gerðist í þeim efnum? Allt frá því að niðurstaðan varð ljós í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur skuldatryggingarálag Íslands verið að lækka. Staða Íslands sem lántaka hefur styrkst. En allan þennan sama tíma hafa fjölmörg önnur Evrópulönd lent í töluverðum hremmingum og skuldatryggingarálag þeirra hækkað hratt. (Gripið fram í: Og í …) Þannig eru nú til að mynda Írland, Grikkland, Portúgal og nú síðast Spánn metin sem lakari lántakendur en Ísland.

Að sjálfsögðu skiptir máli að skuldir íslenska ríkisins jukust ekki nærri því eins mikið og stefndi í og hefði orðið ef ekki hefði verið komið í veg fyrir áform þessarar ríkisstjórnar. Það er svolítið kúnstugt að heyra þessa sömu ríkisstjórn tala nú um að nýja tilboðið sé svo miklu betra vegna þess að aðstæður séu allt aðrar. Að einhverju leyti er það rétt, aðstæður skipta þarna máli en aðstæður eru til komnar ekki hvað síst fyrir gjörðir og ákvarðanir sem leiddu af umræðunni um Icesave og því að þar var ekki gefist upp

Það er margt sem við þurfum að fara yfir í umræðu um þetta mál sem gefst ekki tími til að fara yfir í þessari stuttu ræðu. Ég vil þó sérstaklega taka fram vegna þess að það er atriði sem þarf að huga að helst strax að það er ekki hægt að láta óátalið hvernig ýmsar stofnanir, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Eftirlitsstofnun EFTA, hafa verið misnotaðar til að beita Íslendinga þvingunum í þessu máli. Nú síðast kom staðfesting frá Eftirlitsstofnun EFTA, eða forstöðumanni þeirrar stofnunar sem hefur aldrei verið Íslendingum sérstaklega hliðhollur í þessu mikla deilumáli, svo ekki sé meira sagt, þess efnis að nú þegar stefndi í niðurstöðu í Icesave liti ekki út fyrir að neyðarlögin yrðu dæmd ógild og jafnframt gæti íslenska ríkið farið að taka peninga út úr Landsbankanum til að borga Bretum og Hollendingum, gera upp Icesave-samningana. Þetta er einfaldlega ekki rétt og bendir til þess að þessi eftirlitsstofnun hafi ekki hugmynd um hvernig þessir hlutir eiga að ganga fyrir sig. Það er ekki ríkisstjórnin sem ákveður hvernig þrotabú Landsbankans greiðir út, það er skilanefnd bankans sem gerir það og það getur þess vegna tekið mörg ár ef málaferli kröfuhafa taka það langan tíma.

Í Japan var fjármálakrísa og bankahrun í kringum 1989/1990 og mér skilst að enn séu í gangi málaferli vegna þeirrar krísu. Þótt ég vonist til að skilanefndin geti farið að greiða út úr þrotabúinu fyrr en eftir 20 ár er ríkið samt ekki í aðstöðu til að nálgast þessa peninga strax. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við leggjum mat á þennan nýja samning og vonumst eftir því að endurheimturnar verði miklar að það getur orðið töluverð bið eftir því að þeir skili sér.

Fjölmargir aðrir áhættuþættir eru í þessu nýja tilboði sem við þurfum að skoða sérstaklega og gefa okkur góðan tíma í. Gengið er einn augljós þáttur. Gengið hefur oft verið nefnt í ræðum og viðtölum sem hæstv. fjármálaráðherra hefur farið í og ég man ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra reyni að gera sem mest úr því líka. Hin hliðin á því máli, hin hliðin á þeirri staðreynd að styrking íslensku krónunnar hefur bætt stöðu okkar og orðið til þess að það lítur út fyrir að tapið geti orðið minna en ella, er sú að ef þetta snýst við og gengið fellur verður tapið þeim mun meira. Hversu mikið getur gengið fallið? Við vitum það ekki en við megum ekki gleyma því að nú eru gjaldeyrishöft í gildi á Íslandi. Ef við lítum ekki á þetta opinbera gengi Seðlabankans heldur það verð sem íslenska krónan er keypt og seld á á aflandsmarkaði í útlöndum er allt önnur staða komin upp varðandi þennan samning og þá eru kröfurnar og það sem lendir á íslenska ríkinu miklu meira. Þetta þurfum við að sjálfsögðu allt að skoða þegar við leggjum mat á samninginn og umfram allt gefa okkur tíma í það því að eins og hæstv. fjármálaráðherra benti sjálfur á vinnur tíminn með okkur í þessu. Jafnt og þétt skýrist eitt atriðið af öðru.

Við þurfum líka að hafa til hliðsjónar rétt gögn en reyna ekki að feta þá braut að láta hlutina líta út fyrir að vera öðruvísi en þeir eru eins og mönnum hefur stundum hætt til, ekki hvað síst í Seðlabankanum, í þessu máli. Það er eitt, það mætti gjarnan gera verulegar athugasemdir við það, jafnvel framkvæma rannsókn eins og er svo vinsælt nú um stundir, á því hvernig aðkoma Seðlabankans hefur verið að þessu máli.

Ef við lítum einfaldlega á staðreyndir málsins lá það fyrir, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á áðan, að menn mátu það í fjármálaráðuneytinu svo að kostnaður við gamla samninginn næmi, miðað við forsendur þá, 490 milljörðum kr. Mig minnir að ég hafi skömmu áður áætlað kostnaðinn eitthvað í kringum 500 milljarða kr. Jón Daníelsson hagfræðingur reiknaði þetta í 523 milljarða kr. og svo hefur hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson miðað við 479 milljarða kr., enda varfærinn maður, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson. Af öllum þessum viðmiðunum er ljóst að þarna munar á bilinu 400–500 milljörðum kr. á því sem stjórnarliðar ætluðu sér að samþykkja á sínum tíma og því sem nú er gert ráð fyrir að falli á íslenska ríkið. Þetta er gífurlega mikill munur og ég held að það sé vel þess virði að setja þessar tölur í samhengi við fjárlögin, þessi erfiðu fjárlög sem voru samþykkt hérna áðan, og skoða hina ýmsu liði þar og reikna út hversu mikill niðurskurðurinn er í samanburði við það sem menn voru reiðubúnir að verja í vexti.

Eins og þetta leit út stóð til að borga 42 milljarða kr. á ári í vexti miðað við gamla Icesave-samninginn. Þá þurfa menn að hafa í huga að 42 milljarðar kr. sem menn ætla að skrapa saman og senda út úr landinu eru peningar sem hverfa út úr hagkerfinu, halda ekki áfram að veltast innan þess og þá verða ekki þessi margfeldisáhrif þegar einn notar peningana til að kaupa vörur og þjónustu af öðrum. Það hefði þurft a.m.k. tvöfalt þetta, yfir 80 milljarða kr., í árlegan niðurskurð til að eiga fyrir þessum útgreiðslum úr hagkerfinu. Ég sé ekki fyrir mér miðað við vandræðaganginn við vinnslu þessa fjárlagafrumvarps að þessi ríkisstjórn hefði getað skorið niður um 80 milljarða kr. til viðbótar. Það er svo annað mál að hún gleymir enn og aftur að gera ráð fyrir Icesave-kröfunum í fjárlagafrumvarpinu þrátt fyrir að hún ætli sér að samþykkja þær.

Það hefur verið bent á að töluvert af peningum hafi þegar komið inn í þrotabú Landsbankans sem eins og ég benti á áðan fást reyndar ekki greiddir út strax. Talað er um 300 milljarða kr. og að áhættan fari þar af leiðandi minnkandi. Vissulega er rétt að áhættan minnkar eftir því sem meira fæst upp í kröfur en þegar við sjáum þessa tölu, 300 milljarða kr., þurfum við að huga að því sem var kannski eitt stærsta atriðið í þessum samningaviðræðum, hefði a.m.k. átt að vera það en virðist því miður ekki hafa náðst fram, það sem stundum er kallað Ragnars Halls-ákvæðið. Eins og þetta lítur út núna fá Íslendingar ekki nema rétt rúmlega helminginn af því sem kemur inn í þrotabú bankans til að standa undir því sem Bretar og Hollendingar eru að krefja okkur um. Þeir ætla sjálfir að taka hinn helminginn, 48%, og nota til að standa undir því sem þeir ákváðu sjálfir, pólitísk ákvörðun og ekkert annað, að greiða sínum innstæðueigendum.

Hvaða lög stenst þetta? Getur verið að Íslendingar séu með þessum samningi við Breta og Hollendinga að ráðast í ólögmætan gjörning? Að minnsta kosti lítur norskur lagaprófessor svo á og hefur fært fyrir því rök að Íslendingar, Hollendingar og Bretar geti ekki leyst þetta mál einir og sér því að það séu miklu fleiri aðilar að því. Við getum þá lent í þeirri stöðu að vera búnir að ráðstafa einhverjum peningum til Breta og Hollendinga sem eru ekki til ráðstöfunar. Þetta er enn eitt atriði sem verður að skoða þegar farið er yfir þessa samninga.

Svo er það stóra pólitíska spurningin um lögmæti þessarar kröfu. Það þarf varla að taka það fram eina ferðina enn að ég er eindregið þeirrar skoðunar að þessar kröfur eigi sér enga stoð í lögum. Reyndar hefur Evrópusambandið sjálft staðfest í millitíðinni frá því að við ræddum þetta mál síðast að það sé ekki ríkistrygging á innstæðum. Norski innstæðutryggingarsjóðurinn hefur líka staðfest að þeir líti ekki svo á að þar sé ríkistrygging. Þetta er sem sagt bara spurningin um það, eins og var ágætlega lýst í nýlegum leiðara Financial Times, hvort Íslendingar ætli að láta kúga sig til að taka á sig þessar kröfur. Þetta er hvorki spurning um réttlæti né lögformlega stöðu. Þetta er eingöngu spurning um það hvort menn telja það þess virði, og sætta sig við það innra með sér, að láta kúga sig til að gera það sem þeim ber ekki að gera. Við þær aðstæður hafa sumir stjórnarliðar enn og aftur séð ástæðu til að tala á þeim nótum að okkur liggi svo óskaplega á. Við þurfum bara að drífa þetta af einn, tveir og þrír. Hæstv. utanríkisráðherra líkti þessu nýja tilboði við gæs sem flögraði um og að við ættum að elta þessa gæs og reyna að stökkva á hana. Trúa menn því virkilega að Bretar og Hollendingar sem eru búnir að lýsa því yfir í þingum sínum að þeir fái hverja einustu krónu, eða hvert einasta pund og hverja einustu evru, endurgreidda með vöxtum ætli að taka upp á því, ef Íslendingar vilja gefa sér tíma í að skoða málið, að hætta bara við og afþakka þennan ríkisstyrk frá Íslandi? Trúir því einhver að þessar þjóðir muni gera það á sama tíma og bankakerfi Evrópu og raunar evrópsk ríki eru aftur farin að hanga á bláþræði efnahagslega, að þessi stjórnvöld mundu við þessar aðstæður búa til enn meiri óvissu um allt bankakerfi Evrópu og raunar stöðu fjölmargra evrópskra ríkja? Ef þeir ætla að hóta slíku velti ég fyrir mér, frú forseti — hvernig segir maður „make my day“ á íslensku?