139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingasjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur ekki hlustað á ræðu mína áðan en ég byrjaði auðvitað á að fagna þessum samningi sem væri sérstaklega hagstæður, og hagstæðari en aðrir samningar hefðu verið. Ég hrósaði sérstaklega samninganefndinni fyrir hversu vel hún hefði staðið sig í þessu efni. Ég fór mörgum orðum um það að það hefði verið til farsældar í þessu máli að stjórn og stjórnarandstaða hefðu lagt saman mestallt síðasta ár til að ná þeirri hagstæðu niðurstöðu sem hér er komin fram. Þegar menn draga upp ýmsar tölur og fara í ýmsa talnaleiki hér hlýt ég að draga líka upp það sem lá á borðinu á hinum ýmsu tímum, bæði þegar byrjað var að draga upp og reyna að semja t.d. við Hollendingana, í nóvember eða desember 2008, af fyrrverandi fjármálaráðherra Íslands og fjármálaráðherra Hollands. Það hefur enginn lagt í að fara að reikna það út enda er hálftilgangslaust að gera það. Það er líka ástæða til að skoða þau drög að samkomulagi sem lágu fyrir sem vel hefði verið hægt að landa fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem voru mjög hagstæð (Forseti hringir.) og miklu hagstæðari en þessir samningar sem þó er verið að bera saman við það sem nú liggur á borðinu.