139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði í fyrra andsvari mínu. Ég var að vísa til fjármögnunarvanda orkufyrirtækjanna. Ég veit að það tafði t.d. Búðarhálsvirkjun en ég er ekki með svörin nákvæmlega á takteinum hvað varðar HS Orku. Ég á von á því að eitthvað hafi það torveldað verkefnin sem fyrirtækið ætlaði að ráðast í.

Varðandi þær spár sem settar voru fram held ég að hv. þingmaður verði að átta sig á því að ástæðan fyrir því að þær hafa ekki ræst er linnulaus vinna okkar til að forða því að þær rættust. Ástæðan fyrir því er að við gátum gefið fyrirheit um að verið væri að vinna að samningsbundinni lausn í málinu. Það höfum við gert óspart á undanförnum mánuðum í kjölfar þess að formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fóru með fjármálaráðherra í lok janúar og opnuðu samningsleiðina aftur. Sú staðreynd að samningaviðræður og samningaþreifingar hafa verið í gangi hafa orðið til þess að okkur hefur tekist að halda lánalínum opnum. Það er líka ljóst að allir greiningaraðilar hafa horft til þess að samningaviðræður séu í gangi þegar þeir hafa metið okkur.

Ég vil bara minna hv. þingmann á hvað gerðist fyrst eftir synjun forsetans og hver viðbrögð alþjóðlegra fjármálamarkaða voru. Okkur tókst að koma í veg fyrir hrinu neikvæðra afleiðinga m.a. vegna þess að við gátum haldið voninni um frekari samninga á lofti. Það er grundvallarástæðan fyrir því að erfiðustu aðstæður hafa ekki orðið að veruleika. Við getum sýnt fram á það skýrt af hverju ekki kom til þeirra. Það er vegna þess að við gátum vísað til þess að við værum að vinna að samningsbundinni lausn og værum að koma málinu í ferli. Hv. þingmaður getur lesið gögnin sem um það liggja.

Það er mjög undarlegt ef hv. þingmaður stillir málum upp þannig að Icesave sé einhver hugarburður og engin ástæða sé til að leysa það mál. Mér finnst alveg óskiljanlegt að leggja málið upp með þeim hætti. Ég held að við þurfum öll að viðurkenna að gott sé að losna við málið og rétt sé (Forseti hringir.) að semja um það á réttmætum forsendum. Það er núna sá grunnur sem við höfum til að standa á. Við höfum fengið samning sem við getum öll verið fullsæmd af.