139. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2010.

rannsókn á Íbúðalánasjóði.

22. mál
[22:35]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að læra af fortíðinni og setja hlutina í samhengi. Þegar menn skoða þær rannsóknarnefndir sem starfað hafa taka þær iðulega mið af stemningunni í þjóðfélaginu hverju sinni. Ég las það í frumvarpinu um rannsóknarnefndir. Sumar rannsóknir sem farið hefur verið af stað með í Íslandssögunni hljóma mjög hjákátlega í nútímanum.

Þegar við förum í verkefni eins og þetta, sem við gerum ekki oft, er afskaplega mikilvægt að við tökum til allra þátta sem skipta máli. Ég var einn af flutningsmönnum þessarar tillögu ásamt 1. flutningsmanni hennar, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, og í mínum huga hefur verið alveg skýrt að við ætlum að skoða málin í stóru samhengi, annars værum við ekki að fara í þetta verkefni. Einn af þeim þáttum sem ég lagði áherslu á í spurningu minni var hin ólíka nálgun, þ.e. að Íbúðalánasjóður fór augljóslega gegn peningastefnu stjórnvalda, og við þekkjum það. En það er hins vegar margt annað sem þarf að skoða í þessu samhengi. Eitt af því er tilurð Íbúðalánasjóðs og hvernig frágangurinn var þar, ég held að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni að það hafi verið eitthvað sérstaklega uppi á borðum. Það var á þeim tíma sem menn afgreiddu hlutina á tiltölulega miklum hraða og lítil umræða var um þetta. Það var ýmislegt rætt um stöðuna en það hefur ekki verið upplýst. Ég held að það væri kjörið fyrir okkur að gera það núna og tek það skýrt fram að við ættum að fara í þá vegferð.