139. löggjafarþing — 52. fundur,  17. des. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu viljum við framsóknarmenn að það sé réttlæti í skattkerfinu og við höfum ekki haft sömu nálgun í þeim efnum og til að mynda annar stjórnarandstöðuflokkur sem er Sjálfstæðisflokkurinn.

Ég vil þá svara hv. þingmanni með þeim hætti að mér finnst það ekki sanngjarnt, ef við tökum afmarkaðan þátt og ég vil þá spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það sanngjarnt, að hækka sérstaklega og aukalega álögur á íbúa landsbyggðarinnar með því að hækka kostnað þeirra við að hita húsnæði sitt og hækka kostnað þeirra við að reka bifreiðar sínar umfram íbúa á öðrum svæðum í landinu. Hvaða réttlæti er í því? Hefur hv. þingmaður Samfylkingarinnar velt því eitthvað fyrir sér?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í fjárlagafrumvarpið af því að við ræðum tekjuhlið fjárlaganna hér: Er verið að gefa rétta mynd af því frumvarpi? Ég gef mér það að hv. þingmaður vilji, miðað við fyrri yfirlýsingar hans í Icesave-málinu, samþykkja það að þeir samningar verði innleiddir hér á landi. Hefði þá ekki átt að gera ráð fyrir útgjöldum vegna þess bæði á fjáraukalögum ársins 2010 og fjárlögum ársins 2011? Er það ekki stjórnarmeirihlutinn sem vill samþykkja þá samninga að gefa villandi mynd af stöðu ríkissjóðs?

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort honum finnist það ganga upp að á útgjaldahliðinni geri menn ráð fyrir því að laun opinberra starfsmanna hækki um 0% á næsta ári en á tekjuhlið fjárlaganna sé gert ráð fyrir því að laun á almennum vinnumarkaði hækki um 5%. Þannig áætla menn meiri tekjur, skatttekjur vegna þeirrar forsendu, tekjuhliðarmegin en útgjaldahliðarmegin þar sem menn áætla (Forseti hringir.) 0% hækkun á launum opinberra starfsmanna og þá verður enginn kostnaðarauki.