139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[22:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Hún hefur verið óvenjuathyglisverð miðað við ýmsar umræður um skattamál sem við höfum hlustað á. Það sem er óvenjulegt við þetta mál, þetta skattamál, þær breytingar á skattalögum sem vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur leggur hér fram, er að þetta eru jákvæðar skattbreytingar. Því ber að fagna. Eins og hefur komið fram eru þetta breytingar á virðisaukaskattskerfinu sem verða til þess að starfsumhverfi gagnavera sem bíða í startholunum eftir að geta tekið til starfa hér á landi verður samkeppnisfært, þeim verður gert kleift að keppa við önnur lönd og nýta það forskot sem við Íslendingar höfum upp á að bjóða í þessum geira, það forskot að hafa næga endurnýjanlega orku og veðurfar — veðurfar okkar kemur þessum iðnaði vel vegna þess að mikill hluti kostnaðarins er við kælingu og við Íslendingar getum oft á tíðum leyst það vandamál með því að opna glugga, ekki mikill kostnaður í því.

Þessum iðnaði hefur verið vel tekið af íslenskum ráðamönnum í orði en eins og umræðan hefur sýnt hafa þær viðtökur verið meira í orði en á borði. Það hefur verið rakið vel af ræðumönnum hér á undan og fór ég einnig yfir það í andvari mínu áðan hversu óskaplega langan tíma þetta mál hefur tekið í íslensku stjórnsýslunni. Við samþykktum fjárfestingarsamninginn um gagnaver Verne Holdings í Reykjanesbæ í maí eða júní í fyrra. Við vorum búin að vera að basla við þetta mál en þá átti síðustu hindruninni að vera rutt úr vegi, svo ég noti orðalag hv. þm. Skúla Helgasonar sem var þá formaður iðnaðarnefndar — þá átti síðustu hindruninni að vera rutt úr vegi. Það var ekki alveg þannig og nú mörgum mánuðum síðar sjáum við vonandi loksins síðustu hindruninni rutt úr vegi. Því ætla ég að fagna. Ég ætla að vera á jákvæðari nótum í minni stuttu ræðu og vonast til þess að hv. stjórnarþingmenn sem eiga eftir að tala í þessari umræðu verði það líka og noti kannski tækifærið til þess að fara yfir málið eins og það var frá öllum hliðum.

Ég treysti því og trúi að þetta verði til þess að þau fyrirtæki sem hafa verið að íhuga að koma ekki til landsins með starfsemi sína hætti þeim hugleiðingum og að þær framkvæmdir, til að mynda við gagnaverið á Ásbrú, sem fóru af stað í svo mikilli bjartsýni, af svo miklum krafti og sem var svo gaman að fylgjast með, væntingunum og áformunum, fari í gang og kranarnir sem hafa staðið kyrrir um margra mánaða skeið fari af stað aftur. Ég vona svo sannarlega að þær framkvæmdir verði til þess að hjálpa okkur Suðurnesjamönnum að fá aftur þá von og trú sem hefur skort vegna þess atvinnuleysis sem við höfum glímt við. Ég vona að það verði til þess að setja hjólin af stað aftur á því svæði vegna þess að það er oft lítið — hvernig er málshátturinn? Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Ég vona að þetta geti orðið til þess.

Ég tel að við getum öll tekið höndum saman og fagnað þessu eina jákvæða skattamáli í sögu núverandi ríkisstjórnar. Ég held jafnframt að það væri meiri bragur á því ef menn gætu sagt söguna eins og hún var, hvernig menn úr stjórn og stjórnarandstöðu hafa hlutast til um að láta þetta verða að veruleika vegna þess að það var erfið fæðing.

Virðulegur forseti. Ég læt þessari stuttu ræðu minni lokið. Ég ítreka að þetta er jákvætt mál, eina jákvæða skattamálið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur nokkurn tímann lagt fram.