139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

virðisaukaskattur.

208. mál
[22:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í söguskýringuna um tilurð þessarar breytingartillögu eða málsins alls, ekki eitt ár aftur í tímann, eina viku eða klukkutíma. Það getur vel verið að þetta leki allt út á Wikileaks og þá verðum við komin með þetta á hreint þannig að ég læt öðrum það eftir.

Mér finnst mjög jákvætt, frú forseti, að verið er að skapa störf — við vitum ekki hvað þau verða mörg, þau geta orðið heilmörg með tímanum og mér lýst bara vel á það. Þetta er iðnaður sem nýtir akkúrat þá kosti Íslands sem við kunnum kannski minnst að meta, sem er gjólan og kuldinn, svo nýtur hann ódýrs rafmagns, öruggs rafmagns líka og nægs landsvæðis og alls slíks. Þetta er allt jákvætt. Svo vantar fólk, tæknimenntað og háskólamenntað, þannig að þetta er bara jákvætt. Maður veit ekki hvað störfin geta orðið mörg, kannski einhver þúsund. Ekki veitir af núna.

Ég ætla ekki að vera langorður um þetta en minni á að við eigum eftir að virkja 70% af nýtanlegri orku okkar. Það á reyndar eftir að mæla hve mikið við viljum virkja. Nóg er eftir óvirkjað.

Þetta mál segir manni að þegar við flytjum út vöru, fisk, ál eða eitthvað slíkt, er á hreinu að um útflutning er að ræða og þá er virðisaukaskatturinn endurgreiddur. Þegar við flytjum út þjónustu, frú forseti, vandast málið. Ferðaþjónusta er sú þjónusta sem við höfum flutt mest út. Ferðamenn koma til landsins, þeir eru einstaklingar og endanotendur, þeir borga þá virðisaukaskatt en fá hann ekki endurgreiddan. Hins vegar gætu komið upp vandamál ef heil ferðaskrifstofa í Bretlandi keypti þúsund gistingar á Íslandi og ferðamennirnir borguðu ekki neitt hérlendis heldur mundi ferðaskrifstofan borga beint til einhvers umboðsmanns á Íslandi sem væri með öll hótelin á sínum snærum. Þá er spurning: Yrði borgaður virðisaukaskattur? Það væri ekki eðlilegt því að ferðamennirnir væru búnir að borga virðisaukaskatt í Bretlandi eða hvar það nú væri sem þeir keyptu farmiðana. Útflutningur af þjónustu er því óljós enn þá, hvað þá þegar þjónustan fer fram á rafrænu formi yfir leiðslur. Það er vandamál sem við eigum eftir að leysa og þyrftum að leysa almennt fyrir alla slíka útflutningsþjónustu. Þetta lýsir þeim vandamálum sem við glímum við þegar eitthvað er flutt út sem ekki sést og ekki er hægt að taka á.

En ég gleðst aftur yfir þeirri lausn sem fundin er. Ég er ánægður með að hv. þingmenn geti unnið saman að því að finna lausnir sem er þjóðinni til hagsbóta. Ég styð málið eindregið.