139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

kjarasamningar og endurskoðun fiskveiðistefnu.

[15:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Nú eru aðilar vinnumarkaðarins að hefja samningaviðræður vegna nýrra kjarasamninga. Eins og venjan er er horft til þess sem ríkisvaldið getur lagt af mörkum til að tryggja samninga til langs tíma en því miður hafa strax á fyrstu stigum þessa máls komið upp ágreiningsefni sem hafa verið til umfjöllunar að undanförnu sem gefa mér tilefni til að bera undir forsætisráðherra málefni sem snúa að sjávarútveginum.

Flokkur hennar hefur talað fyrir því í orkunýtingarmálum að farin sé leið sem við getum kallað samningaleið, að gerður sé aðskilnaður milli eignarhalds á auðlindinni og nýtingar hennar. Í drögum að nýrri orkustefnu sem voru kynnt fyrir helgina er gert ráð fyrir því að einmitt þessi leið verði farin, og til hennar var horft í störfum sáttanefndarinnar sem fjallaði um málefni sjávarútvegsins á síðasta ári þar sem tókst breið samstaða um það meðal því sem næst allra þeirra sem tóku þátt í starfinu að gera þá grundvallarbreytingu á fiskveiðistjórnarkerfinu að hverfa frá ótímabundinni úthlutun aflahlutdeildar yfir í tímabundna úthlutun.

Forsætisráðherra hefur ekki tekið af skarið með það að hún styðji þessa meginniðurstöðu nefndarinnar. Það hefur valdið greininni óvissu sem m.a. hefur tafið fyrir fjárfestingu í þessari mikilvægu grundvallar- og undirstöðuatvinnugrein okkar Íslendinga.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað valdi því að gerður er svona mikill greinarmunur á nýtingu orkuauðlindanna og nýtingu sjávarútvegsauðlindarinnar eins og gert er með þessum málflutningi. Hvenær er þess að vænta að ríkisstjórnin geri betur grein fyrir áformum sínum í þessu efni til að við getum lagt grunn að langtímakjarasamningum sem eru okkur svo mikilvægir við þessar kringumstæður? (Forseti hringir.) Raunhæfir og ábyrgir kjarasamningar eru gríðarlega mikilvægur þáttur í endurreisn okkar við þessar aðstæður.