139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

samkeppnislög.

131. mál
[18:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á ekki sæti í viðskiptanefnd en ég get hins vegar greint frá því að það dugar samkvæmt þingsköpum að fram komi ósk við 2. umr. um að mál gangi til nefndar milli 2. og 3. umr. þannig að sú ósk er komin fram. En góður vilji og stuðningur hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur mun ábyggilega hjálpa til við að nefndin taki málið fyrir.

Það sem ég var að fjalla um í ræðu minni áðan, og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir ræddi nokkuð, er þetta atriði sem varðar viðurlög eða þyngjandi ákvarðanir sem geta varðað fyrirtæki sem ekki hafa gerst brotleg við eitt eða neitt. Við skulum hafa í huga að tilskipanir opinberra aðila, stofnunar eða nefndar eða hvað við köllum það, til fyrirtækja, til fólks sem á fyrirtæki sem er í einhverjum rekstri, um að það geri eitthvað sem það vill ekki gera eru auðvitað töluvert íþyngjandi. Það getur metið það svo að verið sé að raska fjárhagslegum hagsmunum þess, að verið sé að raska eignarrétti þess.

Ég hef enga samúð með fyrirtækjum eða stjórnendum eða eigendum fyrirtækja sem brjóta samkeppnisreglur, sem misnota sér markaðsráðandi stöðu, sem beita einhverjum bolabrögðum, eiga í samráði eða einhverju slíku, ég hef enga samúð með þeim. En þegar menn hafa ekki gerst sekir um neitt slíkt get ég ekki séð hvernig við getum falið opinberu stjórnvaldi vald eða rétt til þess að beita slíka aðila þvingunaraðgerðum til að breyta fyrirtækjum sínum, (Forseti hringir.) skipta þeim upp eftir atvikum, gegn vilja sínum.