139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[15:44]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson notaði tækifærið og hnýtti í mig í ræðu sinni. Það er allt í lagi með það, hann má gera það eins og hann vill. Það stendur beinlínis í þessari þingsályktunartillögu, í kaflanum um Evrópusambandið á bls. 11 sem sá ágæti maður dr. Valur Ingimundarson, prófessor við Háskóla Íslands, hefur unnið að beiðni utanríkisráðuneytisins, að Evrópusambandið hafi fengið mjög mikinn áhuga á norðurslóðum í samræmi við vaxandi mikilvægi svæðisins. Það stendur nú bara hér. Ég vildi benda á hættuna við þingsályktunartillöguna vegna aðildarumsóknarinnar sem nú liggur hjá Evrópusambandinu af hálfu Samfylkingarinnar og ríkisstjórnarinnar, þar sem Evrópusambandið hefur ekki aðgang að viðræðunum hér.

Það skal tekið fram að ég er mjög hlynnt því að þingsályktunartillagan verði samþykkt enda hef ég haldið uppi miklum og kröftugum rökræðum um mikilvægi norðurslóða fyrir okkur Íslendinga. Ég hvet þingmanninn til að fara í gegnum ræðugrunn Alþingis þar sem sjá má að ég hef rætt þetta í hverri einustu ræðu, má segja, þegar umsóknartillagan var til umræðu sumarið 2009 og eins hef ég bent á þetta í sambandi við Icesave-samninginn.