139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

337. mál
[16:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Óvænta hnútu fékk ég frá hv. þm. Merði Árnasyni þar sem hann virtist hafa skilið orð mín í ræðu minni áðan á þann veg að yfirvofandi umhverfisbreytingar á norðurslóðum og í veröldinni séu annarra manna mál en okkar Íslendinga og okkur óviðkomandi, nema hvað hér geti orðið hlýrra. Það er alveg fráleitt að lesa þetta út úr orðum mínum eða ræðu.

Að baki þessari umræðu allri og ekki síst ræðu minni liggur vitneskja um miklar yfirvofandi umhverfisbreytingar á norðurskauti jarðar og áhrif þeirra breytinga á líf og landshagi þeirra þjóða sem lifa við norðurskaut. Ég vil því gjarnan fá að leiðrétta þetta og fá nánari útskýringu á því hjá þingmanninum hvernig hann gat lesið þetta út úr orðum mínum.

Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við Íslendingar kortleggjum þá hættu og þau tækifæri sem skapast af yfirvofandi breytingum. Þar erum við annars vegar að tala um þjónustu og tækifæri sem gætu skapast í tengslum við aukna flutninga og skipaferðir en líka þá hættu sem getur skapast af yfirvofandi mengunarslysum og auðlindanýtingunni. Eins og ég gat um í ræðu minni eigum við nýtingu fiskimiðanna undir og frumbyggjar og smærri ríki við norðurskaut eiga líka mikið undir veiðum á sjávarspendýrum, fugli og fiski sem telur kannski ekki mikið í magni í þessu stóra samhengi en er engu að síður afar mikilvægur réttur þessara þjóða. Hann er ekki síst menningartengdur og byggist á hefðbundinni menningararfleifð þessara þjóða sem okkur hlýtur öllum að þykja vænt um.