139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

rannsóknarnefnd um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.

147. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um kosningu rannsóknarnefndar samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003 og birtingu skjala og annarra upplýsinga um málið.

Flutningsmenn auk mín eru eftirtaldir hv. þingmenn: Þórunn Sveinbjarnardóttir, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Álfheiður Ingadóttir, Ásmundur Einar Daðason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Björn Valur Gíslason, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Höskuldur Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Oddný G. Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Skúli Helgason, Valgerður Bjarnadóttir, Þór Saari, Þráinn Bertelsson og Þuríður Backman.

Texti tillögunnar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi samþykkir að kjósa nefnd fimm alþingismanna, sem hafi vald samkvæmt ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar, til þess að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að þáverandi ríkisstjórn Íslands ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak 20. mars 2003 án nokkurs samráðs við Alþingi. Nefndin fái í hendur öll gögn stjórnvalda, þar með taldar fundargerðir, minnisblöð og greinargerðir, sem varpað geti ljósi á þetta ferli. Gögnin verði jafnframt gerð opinber. Nefndin hafi einnig heimild til þess að kalla hvern þann til fundar við sig sem kann að geta upplýst um tildrög ákvörðunarinnar.

Þingmannanefndin njóti aðstoðar skrifstofu Alþingis, en henni verði einnig heimilt að leita eftir utanaðkomandi sérfræðiaðstoð. Nefndarsetan verði ólaunuð, en útlagður kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Nefndarstarfinu ljúki með skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. júní 2011.“

Um þetta mál þarf í sjálfu sér ekki við þessa umræðu, herra forseti, að hafa mörg orð. Rétt er að geta þess að á síðasta löggjafarþingi voru flutt tvö þingmál, tvær þingsályktunartillögur sem lutu að þessu málefni. Annars vegar fluttu nokkrir þingmenn undir forustu hv. þm., núverandi hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, tillögu um birtingu skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak og hins vegar fluttu allmargir þingmenn undir forustu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur tillögu um kosningu rannsóknarnefndar vegna sama máls. Mælt var fyrir tillögunum og þær voru ræddar í einu lagi sameiginlega hinn 18. febrúar á síðasta ári. Þá fór fram mjög ítarleg umræða um málið og tillögunum báðum var síðan vísað til utanríkismálanefndar sem tók þær til umfjöllunar, sendi til umsagnar og fékk allnokkrar umsagnir. Því miður gafst ekki tækifæri eða tími til þess að ljúka umræðu um málið á vettvangi nefndarinnar þannig að það kom ekki að nýju til umræðu á Alþingi eða til síðari umræðu.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir er unnin upp úr þessum tveimur tillögum. Hún er í raun og veru unnin þannig að þessum tveim tillögum sem voru til umfjöllunar á síðasta þingi hefur verið slegið saman í eina. Greinargerðin með þessari tillögu er þar með byggð á þeim greinargerðum sem fylgdu hinum fyrri tillögum að langmestu leyti. Ég sé ekki sérstaka ástæðu til að fara mjög ítarlega í hana við þessa umræðu vegna þess að umræðan um tilefnið fyrir því að þessi mál verði rannsökuð og gögn birt hefur þegar farið fram hér fyrir ári síðan.

Ég tel þó rétt að ítreka að þeir sem standa að tillögunni nú telja nauðsynlegt að Alþingi láti rannsaka hvernig staðið var að ákvörðun um stuðning við Íraksstríðið innan ríkisstjórnarinnar þáverandi árið 2003. Lagt er til að sú nefnd sem á að kjósa samkvæmt þessari tillögu verði skipuð fimm þingmönnum, einum frá hverjum stjórnmálaflokki. Hlutverk hennar verður meðal annars að athuga:

a. hvort sérstök beiðni barst um þennan stuðning, hver beiðandinn var og að hverjum beiðnin beindist innan íslenska stjórnkerfisins,

b. hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan,

c. hvaða mat var lagt á þær upplýsingar af hálfu sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat,

d. hvernig ákvörðunin var tekin innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar,

e. hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum, 24. gr. þingskapalaga, og hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert,

f. hvenær var horfið frá þeirri stefnu að gefa bæri vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ljúka störfum og að hernaðaraðgerðir gegn Írak kölluðu á nýja ályktun öryggisráðsins,

g. hvernig ákvörðun ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við umheiminn, hverjum voru send boð um þessa ákvörðun og með hvaða hætti,

h. af hverju sagt var frá ákvörðuninni í Washington en hún ekki kynnt íslensku þjóðinni með fréttatilkynningu, á blaðamannafundi eða eftir öðrum viðurkenndum samskiptaleiðum stjórnvalda og almennings.

Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál verði til lykta leitt með sérstakri rannsókn. Við höfum að undanförnu, og ekki síst eftir efnahagshrunið og hina ítarlegu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, átt umræður á Alþingi um mikilvægi þess að auka gagnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð bæði innan stjórnsýslunnar og á vettvangi Alþingis, það sé mikilvægt að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis með þeim ákvörðunum sem teknar eru og teknar hafa verið, m.a. með því í ríkari mæli en hingað til hefur verið gert að kjósa sérstakar rannsóknarnefndir til þess að fara yfir einstök mál. Í hv. allsherjarnefnd er nú til umfjöllunar frumvarp um opinberar rannsóknarnefndir þannig að það mál sem er flutt núna fellur ágætlega inn í þá umræðu og þá umgjörð sem þessum málum hefur verið búin að undanförnu og í takt við þær umræður sem fram hafa farið hér að lútandi.

Ég held, virðulegur forseti, að ég spari mér frekari framsögu með þessu máli á þessu stigi og vil leyfa mér að vísa í hina ítarlegu umræðu sem fór fram hér í þingsal 18. febrúar 2010 þegar mælt var yfir þessum tveimur tillögum sem þá voru fluttar sameiginlega. Eins og ég sagði áðan fór þá fram mjög ítarleg umræða og margir þingmenn tóku til máls. Að sjálfsögðu sýndist þar sitt hverjum en flestir held ég að hafi verið þeirrar skoðunar að það væri mikilvægt að leiða mál eins og þessi til lykta með einhverjum tilteknum hætti jafnvel þó að ýmsir sem vildu gjarnan fá fram allan sannleikann í málinu væru þeirrar skoðunar að ákvörðunin um að styðja innrásina í Írak hafi verið rétt. Menn hafa að sjálfsögðu sinn rétt til að hafa þá skoðun. Ég þeirrar skoðunar að sú ákvörðun hafi verið röng. Og athyglisvert var að í umræðunni í fyrra kom m.a. fram af hálfu forustumanna Framsóknarflokksins sem áttu sæti í ríkisstjórn á þessum tíma að þeir telja enn fremur að ákvörðunin hafi ekki byggst á réttum forsendum og hafi í raun og veru verið mistök eins og þá var orðað.

Ég vonast til að þessi tillaga fái góðar viðtökur og að fram fari efnisleg umræða um hana bæði í þingsal og eins á vettvangi þingnefndar þannig að hægt verði að afgreiða hana núna fyrir vorið og setja þá vinnu í gang sem ekki tókst á síðasta þingi.

Að svo mæltu ætla ég að leyfa mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar til meðferðar.