139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[14:42]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um orkuskipti í samgöngum. Hún byggir m.a. á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að móta eigi heildstæða orkustefnu sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi.

Þingsályktunartillagan tengist einnig metnaðarfullum markmiðum ríkisstjórnarinnar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en minnkun á losun frá samgöngum er mjög veigamikill þáttur í þeim samdrætti. Þar liggja tækifæri okkar Íslendinga. Orkuþörf í samgöngum er nú mætt með innfluttu jarðefnaeldsneyti. Sóknarfærin liggja því í að skipta innfluttum kolefnaorkugjöfum út fyrir endurnýjanlega visthæfa orku ásamt því að draga úr heildarorkunotkun.

Þau markmið sem fram koma í þessari þingsályktunartillögu eru að auki í samræmi við þær áherslur sem fram koma í drögum að heildstæðri orkustefnu sem kynnt var fyrir helgi og er nú í opnu kynningar- og umsagnaferli og síðan aftur líka þær áherslur sem lagðar eru í sóknaráætlun 20/20. Í drögum að heildstæðri orkustefnu er lögð áhersla á ýmsar leiðir til að draga úr innfluttu kolefnaeldsneyti og tengist hún ekki aðeins umhverfismálum heldur einnig orkuöryggi. Í sóknaráætluninni Ísland 20/20 eru svo sett mælanleg markmið hvað varðar aukna notkun vistvæns eldsneytis í samgöngum og sjávarútvegi.

Þingsályktunartillagan sem ég mæli hér fyrir er afrakstur starfshóps sem ég skipaði í maí á síðasta ári til að vinna að stefnumótun um gerð áætlunar um orkuskipti í samgöngum með áherslu á umhverfisvernd, gjaldeyrissparnað, hagkvæmni og nýsköpun. Þá má ekki gleyma aðgengi að hinum nýju orkugjöfum. Í verkefnisstjórninni eru fulltrúar fjögurra ráðuneyta, samtaka sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja.

Virðulegi forseti. Það er líka mikilvægt að segja frá því að stýrihópurinn um orkuskipta áætlun hefur enn fremur starfað í miklu samráði við aðila sem koma að þessum málum frá ýmsum sviðum og hafa verið haldnir tveir opnir fundir um málið. Tillögurnar koma víða að og hafa síðan verið dregnar saman inn í þessa þingsályktunartillögu.

Í tillögunni er lagt til að Alþingi feli iðnaðarráðherra að vinna að því að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum með notkun endurnýjanlegra orkugjafa og líka með orkusparnaði. Lokatakmark þeirrar vinnu er að hér á landi fari fram orkuskipti þar sem jarðefnaeldsneyti verði leyst af hólmi með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Verði tillagan samþykkt verður í framhaldinu unnið að markmiðssetningu og aðgerðaáætlun fyrir orkuskipti í samgöngum fram til ársins 2020 og er að því stefnt að sú stefnumótun liggi fyrir í maí nk. Sérstök áhersla verður lögð á að vinna markvisst að níu tilteknum stefnumiðum.

1. Ísland verði í forustu fyrir notkun á endurnýjanlegri orku í samgöngum enda þekkt að Ísland er gríðarlega ákjósanlegt land fyrir aðila til að prófa nýja tækni og annað slíkt vegna þess að hér er lítið samfélag en jafnframt erum við jafnflókið samfélag og milljónaþjóðirnar sem eru nágrannar okkar.

2. Skapaðir verði hagrænir hvatar fyrir ökutæki sem nota endurnýjanlega orkugjafa.

3. Skattkerfinu verði beitt til að liðka fyrir orkuskiptum og orkusparnaði.

4. Markvisst verði hvatt til orkusparnaðar, m.a. með upplýsingamiðlun.

5. Komið verði á samstarfi og samráði allra helstu hagsmunaaðila.

6. Menntun, rannsóknir og þróun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa verði efld.

7. Ísland verði vettvangur fyrir alþjóðlegt þróunarsamstarf.

8. Fé til rannsókna og þróunaverkefna sem tengjast orkuskiptum verði aukið.

9. Ísland uppfylli alþjóðasamþykktir um losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, orkusparnað og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.

Virðulegi forseti. Með orkuskiptum í samgöngum er stuðlað að uppbyggingu græna hagkerfisins með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þau munu leiða til minni losunar gróðurhúsalofttegunda, gjaldeyrissparnaðar, sköpunar nýrrar þekkingar og nýrrar atvinnustarfsemi hér á landi. Við sjáum mjög áhugaverðan vísi að slíkri atvinnustarfsemi víða um land nú þegar. Við þurfum að styðja við þróun þessarar atvinnustarfsemi með stefnumörkun og markmiðum af hálfu hins opinbera.

Tillagan er sett fram til að afla stuðnings Alþingis við þá stefnumótun sem fram kemur í tillögunni. Slíkur stuðningur er mikilvæg forsenda þess að hægt verði að innleiða hagræna hvata og ívilnanir sem hraða hagnýtingu nýrrar tækni og endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum. Orkuskipti í samgöngum verða að byggjast á því að þróa og taka í notkun lausnir sem henta mismunandi þörfum. Mikilvægt er að styðja við og efla nýsköpun tengda orkuskiptum og ekki síst sköpun nýrra starfa.

Við framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum eru margvíslegir kostir vel þekktir. Einstakar tæknilausnir eru þó enn í þróun auk þess sem eldsneytisnýtni hefðbundinna ökutækja eykst og fer stöðugt batnandi. Markmiðið með þessari þingsályktunartillögu er ekki að afla stuðnings við tilteknar tæknilausnir, heldur að skapa umhverfi svo mismunandi lausnir nái að dafna.

Virðulegi forseti. Það er gríðarlega margt að gerast á þessu sviði, bæði austan við okkur og vestan. Svo ég taki sem dæmi hefur Evrópusambandið sett sér gríðarlega metnaðarfull markmið um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Þó að Bandaríkin í heild hafi ekki náð slíkum árangri hafa engu að síður stór ríki í Bandaríkjunum sjálf tekið ákvarðanir og sett sér metnaðarfull markmið á þessu sviði. Þess vegna er gríðarlega margt að gerast núna á þessu sviði og þess vegna má ákvörðun um tæknina ekki verða miðstýrð ákvörðun af hálfu einhvers stjórnvalds heldur munu stórir markaðir erlendis ráða því að lokum hvaða lausnir verða hagkvæmastar. Þess vegna er hér lagt til að stutt verði við þessa almennu þróun á breiðum grunni enda er það líka skoðun margra að fjölbreyttar lausnir verði ofan á, ekki ein allsherjarlausn á sviði grænnar orku eða grænna lausna í samgöngum.

Virðulegi forseti. Þess vegna leggjum við hér áherslu á að hugað verði að uppbyggingu innviða þannig að heimilin í landinu eigi greiðan aðgang að þessum orkugjöfum og í öðru lagi að horft verði til hagrænna hvata, þ.e. hvernig við getum notað skattkerfið til að hvetja til þessara skipta á orkugjöfum. Það verður líka horft til nýsköpunar sem síðan skapar störf og til starfafjölgunar og þannig þurfum við líka að horfa til stoðkerfis atvinnulífsins, hvernig við getum nýtt það til að styðja við þessa þróun. Eins og gert hefur verið hér í þessari þingsályktunartillögu skiptir mjög miklu máli að samræma aðgerðir ríkisins, hafa eina heildarstefnu. Þess vegna koma fjögur ráðuneyti að gerð hennar þannig að þeir sem starfa á þessu sviði hafi eina gátt inn í áætlunina en ekki sé unnið að þessu á mörgum stöðum.

Þess vegna, virðulegi forseti, hlakka ég til að fylgjast með umræðunni um þessi mál í þinginu. Hér tel ég gríðarlega áhugavert mál á ferðinni og ég held að þetta sé líka afar tímabært vegna þess að margir frumkvöðlar og mörg fyrirtæki bíða eftir því að svona heildstæð stefna um það hvernig eigi að styðja við þessa þróun líti dagsins ljós.

Að máli mínu loknu, virðulegi forseti, legg ég til að tillögunni verði vísað til iðnaðarnefndar.