139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður getur í hjarta sínu verið algjörlega ósammála hæstv. fjármálaráðherra um þær leiðir sem hann hefur farið að markmiði ríkisstjórnarinnar. Hún getur þess vegna rifist eins lengi og hún vill gegn skattahækkunum hans. Það er alveg rétt, það eru margir sem telja að það hafi ekki verið rétt leið. Það breytir ekki hinu að sú leið hefur skilað okkur í þann áfangastað að þar hefur verið lagður grunnurinn að því sem er að gerast núna. Lækkandi vöxtum, lækkandi verðbólgu, aukinni fjárfestingu, meira að segja aukinni sókn erlends fjármagns inn í landið, í þeim þáttum sem ég var að telja hér upp. Ætli þau teygi sig ekki samanlagt hátt á annað hundrað milljarða í erlendri fjárfestingu, þessi verkefni sem nú eru nánast komin fram yfir ákvörðunarstig? Menn væru væntanlega ekki að koma með þessa peninga til Íslands ef þeir teldu að hér væri allt á niðurleið. Þvert á móti er þetta staðfesting á því að ríkisstjórnin er á leið að því marki sem við höfum sett okkur, þ.e. að endurreisa samfélagið.

Þetta birtir trú alþjóðasamfélagsins á því að samfélagið hér er að lifna við. Það sem hv. þingmaður kallaði glæður mundi ég ekki skilgreina þannig. Ég mundi frekar telja að hér væri kominn vísir að snarkandi eldi og að það væri farið að hitna í atvinnulífinu. Ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum að koma því af stað. Ég held við séum að koma því af stað en það eru margar leiðir til þess.

Varðandi eignarnámið vísa ég til þess sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði á öðrum degi eftir að hann tók sæti á Alþingi: Ég hef sama viðhorf til eignarnáms og hann. Það er ekkert mjög ósvipað því viðhorfi sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, Þorsteinn Pálsson, hefur.