139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Vestia-málið.

[17:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég held ég geti sagt að ég sé nokkurn veginn sammála öllum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað í það minnsta efnislega, ef hæstv. fjármálaráðherra er undan skilinn. Spurningar mínar til hans voru mjög einfaldar: Á að fara eftir reglum í einkavæðingunni? Og hitt: Ætlarðu að segja almenningi frá söluverði (Forseti hringir.) á einkavæddu fyrirtæki?

(Forseti (ÁI): Forseti minnir hv. þingmann á að gæta viðtekinna venja þegar hann ávarpar þingmenn í sal.)

Ég þakka virðulegum forseta kærlega fyrir umhyggjuna og athugasemdina en það breytir því ekki að við sjáum hér hæstv. fjármálaráðherra í þessari ríkisstjórn sem leyfði sér að segja að það svar sem ég fékk, og hver einasti maður getur lesið, sé fullnægjandi. Hann leyfði sér að segja það.

Hæstv. fjármálaráðherra, og ég vil vekja athygli þingheims á þessu því þetta er fordæmisgefandi, segir hér að ekki eigi að upplýsa um söluverð einkavæddra fyrirtækja. (Fjmrh.: Hvaða þvæla er þetta?) Þetta er ekki síðasta fyrirtækið sem verður einkavætt. Svarið sem ég fékk var algjörlega ófullnægjandi og var verið að taka saman öll fyrirtækin í eina tölu en ekki upplýst um skuldir sem sannarlega eru partur af söluverði. Það er ekki aðeins að hæstv. fjármálaráðherra beri ábyrgð á svarinu, en hann kom hér og ítrekaði að honum fyndist þetta fullkomlega eðlilegt svar sem þýðir að þannig eiga málin að vera.

Ég vil hvetja stjórnarliða til að koma í veg fyrir það því ef það verður verður aldrei friður eða traust í íslensku viðskiptalífi, ef menn ætla ekki að upplýsa um jafnsjálfsagða hluti (Forseti hringir.) og það hvert er söluverð á einkavæddu fyrirtæki.