139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

grunsemdir um njósnir á Alþingi.

[10:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég las á forsíðu Morgunblaðsins í dag að í febrúar í fyrra hafi komið upp mjög alvarlegt atvik í þinginu þegar upp komst um tölvuleka. Hér er ekki um neinar flugusögur að ræða heldur er staðfest af skrifstofustjóra Alþingis að fundist hafi tölva á 5. hæð skrifstofuhúsnæðis Alþingis í Austurstræti 8–10 sem virtist hafa verið að afrita gögn af tölvuneti Alþingis. Þetta er mjög alvarlegt mál og ég krefst þess að sérstök umræða fari fram um það í þinginu.

Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort honum hafi verið kunnugt um þessa atburði og þá lögreglurannsókn sem í kjölfarið fór. Hvað kom út úr þeirri lögreglurannsókn? Af fréttum að dæma virðist ekki víst að gögn hafi ekki verið afrituð. Ég fer fram á það við virðulegan forseta að þinginu verði gerð grein fyrir þessu máli í heild sinni, hvernig skýrslutökum var háttað, hverjir voru kallaðir til skýrslutöku og hvaða aðgerðir og viðbrögð Alþingi hugðist beita í þessu máli.