139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

erlendar fjárfestingar.

[11:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er mikið bankað á dyrnar en eins og ég sagði áðan er árangurinn lítill sem enginn. Hér upplýsir ráðherra að það eigi bara að halda áfram einhverjum rannsóknum og reyna að fjölga í hópi þeirra fjárfesta sem vilja koma inn á svæðið, t.d. í Þingeyjarsýslu. Þetta er svona eins og annað sem gerist hjá hæstv. ríkisstjórn, það er sett í nefnd.

Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, og því þarf hæstv. fjármálaráðherra að svara, að ítarleg skýrsla sem unnin var fyrir fjárfestingarsvið Íslandsstofu gefur stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum algera falleinkunn. Og einmitt málsmeðferð eins og hefur verið viðhöfð í Magma-málinu fælir erlenda fjárfesta frá. Pólitískt sáum við síðan matsfyrirtæki skila frá sér í gær að pólitísk áhætta hefur aukist verulega. Ég spyr þá ráðherra enn og aftur: Deilir hann áhyggjum með aðilum vinnumarkaðarins, með ASÍ, með Samtökum (Forseti hringir.) atvinnulífsins að það sé grundvallaratriði að uppbygging byggist á erlendri fjárfestingu og verðmætasköpun í þessu landi og deilir hann áhyggjum af því að (Forseti hringir.) málsmeðferðin sem ríkisstjórnin viðhefur verði til að draga úr áhuga þeirra fyrirtækja sem hingað vilja koma?