139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi fagna því að þessi jafnréttisáætlun sé komin fram. Ég tel afar mikilvægt að við tökumst á við að ræða hana hér í þinginu og klára. Ég hlakka til að takast á við verkefnið þegar það kemur til hv. félagsmálanefndar.

Það er ýmislegt í þessari áætlun sem er afar mikilvægt að ræða, til að mynda kynbundinn launamunur. Við þurfum að fá á því skýringar af hverju við hjökkum eilíflega í því fari að það sé kynbundinn launamunur þrátt fyrir að allir, a.m.k. þeir sem tjá sig um málið opinberlega, ítreki í sífellu að þeir séu andsnúnir þessu fyrirbæri og vilji leiðrétta það. Síðan gerist því miður ekki eins mikið og við vildum.

Við munum öll, frú forseti, eftir umræðunni um það að ef við ætluðum að halda áfram á sama hraða í að leiðrétta kynbundinn launamun mundi það taka eitthvað á annað hundrað ár. Það gengur náttúrlega ekki, við verðum að breyta þessu

Í áætluninni er talað um fæðingarorlofið. Það er afar mikilvægt sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir kom inn á áðan, að við reynum með öllum tiltækum ráðum að vernda og verja það kerfi. Eins og kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar áðan eru viðhorfin í samfélaginu þrátt fyrir allt hægt og hægt að breytast. Yngri karlar, tel ég, velta því ekki lengur fyrir sér hvort þeir eigi að taka þátt í uppeldi barna sinna, það er bara hlutverk þeirra. Þetta viðhorf er sem betur fer, að mínu viti, orðið það viðtekna sem er afar jákvætt.

Við þurfum að hugsa upp leiðir og raunar er það lagt til í 29. lið, á bls. 8 í tillögunni, að fá bæði kynin til að fara í greinar hins kynsins, ef svo má að orði komast, þ.e. fá til að mynda unga karla til að sækja í grunnskólakennslu og hjúkrun og fá á sama hátt konur til að sækja í greinar sem hafa fyrst og fremst verið stundaðar af körlum fram undir þetta.

Ég minni þingmenn á að á síðasta þingi lagði ég fram þingsályktunartillögu einmitt um þetta, um eina leið sem fær væri í þessu efni, þ.e. að nota Lánasjóð íslenskra námsmanna til að beita sér í þessu efni. Vafalítið eru til fleiri leiðir.

Það er afar mikilvægt að hugsa leiðir eins og koma fram í C-lið tillögunnar til að fá konur í meira mæli inn í stjórnir fyrirtækja og í sveitarstjórnir. Í seinni tíð hefur gengið betur að fá konur til að taka þátt í framboði til Alþingis og í rauninni hefur gengið ágætlega að fá konur til að bjóða sig fram til sveitarstjórna, hins vegar hefur ekki gengið eins vel að leiðrétta hlutfallið í sveitarstjórnunum sjálfum. Þar þurfum við að taka á.

Í tillögunni er líka komið inn á þátttöku í félagslífi. Að mínu viti tengist þátttaka í félagslífinu og stjórnun þess, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum, óhjákvæmilega því hvernig við ölum upp stjórnendur og fólk sem síðan fer inn í stjórnmálaþátttöku eða stjórnun fyrirtækja. Þetta held ég að við þurfum sannarlega að skoða og ég fagna því sérstaklega að kominn sé sá punktur inn í áætlunina að horfa á þessa þætti. Þar sem talað er um félagslíf í framhaldsskólum þarf líklega að byrja fyrr, og líklega strax í grunnskólanum, að reyna að átta sig á því hvað er um að vera.

Við þurfum að brjóta glerþakið. Það hefur oft verið talað um að konur komist ekki upp úr einhverju tilteknu glerþaki þegar kemur að áhrifum, launum og jafnri stöðu á við karla í samfélaginu. Það er afar mikilvægt að við finnum tækin til að brjóta þetta glerþak. Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvort það hafi ekki til að mynda áhrif á þátttöku í stjórnmálum og í opinberu lífi hvaða fyrirmyndir við höfum úr fjölmiðlum. Fyrirmyndirnar eru að tveimur þriðju karlmenn. Karlmenn í fjölmiðlum stjórna umræðunni að langstærstum hluta til. Þurfum við ekki sérstakt átak í þessu efni, að ráða konur á fjölmiðlana í miklu meira mæli, þannig að konur til jafns við karla taki þátt í að stjórna samfélagsumræðunni og eigi þannig þátt í því að leiðrétta þann halla sem við búum við?

Það er líka athyglisvert þegar maður rýnir í tölur og skoðar hverjir kenna í háskólunum að að stærstum hluta til eru karlar í prófessors- og dósentsstöðum. Það eru karlar í háskólunum sem kenna konunum sem útskrifast. Þetta er svolítið umhugsunarefni. Af hverju njóta þessar konur sem útskrifast ekki sömu launa og karlarnir sem útskrifast með þeim? Við þurfum að gera meira en að tala um þetta og ég held að svona áætlun geti verið ágætisskref í þá átt.

Það hefur aðeins verið komið inn á karllæg og kvenlæg sjónarmið í þessari umræðu. Ég held að ég geti tekið undir það sem nokkrir þingmenn hafa sagt, við þurfum að hverfa frá þeim talsmáta. Ég veit ekki hvort ég er sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, að við eigum að tala um ný sjónarmið eða gömul. Ég er ekki alveg tilbúinn til að samþykkja það að gömul sjónarmið séu endilega verri en ný en kannski þurfum við að gera bæði karllæg og kvenlæg sjónarmið karlæg.