139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur kærlega fyrir framsöguna í þessu merkilega máli sem ég hef hlustað á hana fara ítarlega yfir, ekki bara í eitt ár heldur í vel á annað ár innan þingflokksins. Þetta er markmið sem hún hefur haft í þessu merkilega máli og reynt að koma í gegnum þingið, máli sem getur haft svo mikil áhrif á lífshamingju fólks þar sem aðstæður geta verið mjög mismunandi frá hjónum til hjóna eða einstaklingum til einstaklinga. Ég þakka henni sérstaklega fyrir eljuna og þrautseigjuna í þessu mikilvæga og umdeilda máli.

Fyrirspurn mín beinist að þeim andmælum sem hefur verið hreyft gegn málinu af hálfu til að mynda siðfræðiráðs Læknafélagsins. Mig langar að fá afstöðu hv. þingmanns til þeirra niðurstaðna sem þar liggja fyrir þannig að hún komist líka í þingbækur.

Ég vil líka spyrja hana um annað mál sem ég tel ekki lengur tengt staðgöngumæðrun, mál Jóels á Indlandi. Það mál finnst mér að við eigum að taka út fyrir sviga í allri umræðu um staðgöngumæðrun. Það þarf að koma hjónunum heim með barnið, með Jóel, sem er íslenskur ríkisborgari. Það þýðir ekki fyrir stjórnsýsluna að móast við sem ég veit að utanríkisráðherra hefur alls ekki verið að gera. Ég vil ekki nálgast þetta neikvætt, ég trúi ekki öðru en að innanríkisráðherra beiti sér líka af alefli því að þetta snertir fyrst og fremst þessa fjölskyldu, það að hún komist heim og finni að hún sé öllsömul af einlægni velkomin hingað til landsins okkar. Ég bið hv. þingmann að útskýra ástæðurnar að hennar mati fyrir því að Jóel og fjölskylda hans, Jóel sem er kominn með íslenskan ríkisborgararétt, eru ekki enn komin til landsins.