139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:22]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Hæstiréttur hefur nú, allir sex dómarar þar, komist að þeirri niðurstöðu að það stjórnlagaþing sem hæstv. forsætisráðherra hefur hvað mest barist fyrir verði ekki haldið. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu [Kliður í þingsal.] að sá lagagrundvöllur sem undir þessu stjórnlagaþingi hvílir … (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Bið ræðumenn að …)

… sé skakkur. Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu með skýrum hætti hér í dag að kosningin til stjórnlagaþingsins, að sú lagasetning sem hæstv. forsætisráðherra barðist hvað mest fyrir, sé svo broguð að búið er að ógilda almennar kosningar í landinu. Þetta er í fyrsta skiptið í sögu þessa lýðræðisríkis að Hæstiréttur telur sig knúinn til þess að ógilda almennar kosningar. Það er ekki gert vegna þess að einhver smámál séu athugaverð, það er ekki gert út af einhverjum smámálum. Það er vegna þess að lagasetningin sem undir þessu hvílir er svo skökk að Hæstiréttur, æðsti dómstóll þjóðarinnar, gat ekki annað en fallist á það að ógilda þyrfti kosningarnar.

Ég vil benda á að í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram, með leyfi forseta:

„Það fellur í hlut löggjafans að setja skýrar og ótvíræðar reglur um framkvæmd opinberra kosninga þar sem tekið er réttmætt tillit til aðstæðna sem leiða af sérstöku eðli þeirra. Það var á hinn bóginn ekki á færi stjórnvalda að víkja frá skýrum fyrirmælum laga um framkvæmd þeirra vegna fjölda frambjóðenda eða nýs verklags sem hentugt þótti vegna rafrænnar talningar kosninga.“

Allt þetta mál, stjórnlagaþingið, öll framkvæmd þessa máls í þinginu og vinnan við það, var meiri hluta þingsins til vansa. (Gripið fram í.) Það var farið af stað með allt of miklu offorsi í þessari lagasetningu. Menn eru að fara í tilraunastarfsemi í grundvallarmálum þegar verið er að halda almennar kosningar.

Ég hygg að í hefðbundnum lýðræðisríkjum, og það ætti Ísland heldur betur að vera, mundi hæstv. forsætisráðherra íhuga vandlega þá stöðu sem upp er komin í þessu efni. Ég vil hvetja hæstv. forsætisráðherra til að gera einmitt það að nýta nú þennan dag til að íhuga þá stöðu sem upp er komin þegar nauðsynlegt er, vegna vinnubragða ríkisstjórnarinnar, að ógilda almennar kosningar. Ég vænti þess að hæstv. forsætisráðherra komi hér á morgun og geri þinginu grein fyrir því hvernig hún hyggst bregðast við þeirri stöðu sem þetta mál er komið í.

Það liggur alveg fyrir að stjórnlagaþing verður ekki haldið miðað við þær niðurstöður sem hér hafa orðið hjá Hæstarétti. Ef það er skoðun hæstv. forsætisráðherra að engu að síður skuli halda áfram með þetta mál verður hæstv. forsætisráðherra að leggja fram nýtt lagafrumvarp um stjórnlagaþing. Þá mun reyna á þann trúverðugleika sem hæstv. forsætisráðherra hefur, þá mun reyna á það hvort ríkisstjórn sé fær um að breyta þeim vinnubrögðum sem hún hefur viðhaft í hverju málinu á fætur öðru.

Óvissan er mikil á Íslandi. (Gripið fram í.) Pólitísk óvissa er mikil á Íslandi. Í hverju málinu á fætur öðru sýnir ríkisstjórnin af sér óvönduð vinnubrögð. Sú óvissa sem nú er að leiða okkur í hvað mest vandræði er sú pólitíska óvissa sem tröllríður þjóðfélaginu. Nú hefur það bæst við að hæstv. ríkisstjórn hefur gerst ber að þeim vinnubrögðum, í þessu stjórnlagaþingsmáli, að ógilda þarf almennar kosningar í landinu. Mun það bætast við aðra pólitíska óvissu sem er fyrir höndum. Ekki þarf að nefna mjög mörg dæmi til viðbótar við þetta. Við getum nefnt önnur dæmi, t.d. þær athugasemdir sem hafa komið fram um vinnubrögð sem viðhöfð eru í tengslum við hið svokallaða Magma-mál og margt fleira. En þetta mál er sýnu alvarlegast.

Við sjálfstæðismenn studdum ekki þetta stjórnlagaþing í þeim búningi sem það var og allan tímann töluðum við gegn því að út í þetta skyldi farið. Fyrst og fremst vegna þess að málið var vanbúið og ekki nógu vel unnið, fyrir utan það að það er skoðun sjálfstæðismanna að setning stjórnarskipunarlaga skuli vera á hendi Alþingis.

Nú hafa þau vinnubrögð sem þarna voru viðhöfð fengið áfellisdóm af hálfu Hæstaréttar Íslands. Þessi ríkisstjórn og sú verkstjórn sem þar er viðhöfð — ríkisstjórnin hlýtur að taka þessa niðurstöðu mjög alvarlega. Ég tala nú ekki um þá fjöldamörgu frambjóðendur sem buðu sig fram í góðri trú á þetta stjórnlagaþing og sitja nú uppi með það að vinnubrögðin voru svo óvönduð að þetta er allt komið í tómt uppnám. Um það höfum við lesið á fréttamiðlum í dag, tilvitnanir frá þeim frambjóðendum sem þar var um að tefla.

Þetta er enn eitt dæmi um þær ógöngur sem stjórn þessa lands er komin í. (Gripið fram í.) Flestir mundu íhuga stöðu sína vandlega. Flestir mundu gera það. Þá kröfu verður að gera til ríkisstjórnarinnar að hún taki þetta alvarlega og bregðist við með skynsamlegum hætti. Ég ítreka þá skoðun mína að hæstv. forsætisráðherra verði maður að meiri ef hún gerði einmitt það og kæmi aftur í þingið á morgun og gerði grein fyrir því og kæmi með raunveruleg svör við því í hvaða stöðu þetta mál er komið. (Gripið fram í: Það er ekki …)