139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

311. mál
[18:37]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum vona að þetta mál fari sinn veg. En af því að hv. þingmaður kemur inn á Evrópusambandið og Evrópusambandsumsóknina sem var samþykkt af hálfu þingsins í júlímánuði árið 2009 að þá er það gamalkunnugt hvað stendur í stjórnarsáttmálanum. Við þekkjum það mætavel að oft voru ákvæði í stjórnarsáttmálanum sem við vorum ekki endilega sammála en léðum engu að síður atkvæði okkar til að veita stóru myndinni framgang.

Það kann vel að vera að hv. þingmaður meti það svo að menn hafi greitt atkvæði þvert gegn vilja sínum. Engu að síður var það þannig að Alþingi Íslendinga samþykkti þessa aðildarumsókn með meiri hluta, hvort sem hann er knappur eða ekki var samþykkt á Alþingi að sækja um aðild að Evrópusambandinu og það kemur ekki hv. þingmanni á óvart að ég lýsi og undirstriki skoðun mína að okkur ber að halda áfram því ferli og klára það svo að þingið geti síðan tekið afstöðu til málsins og ekki síður þjóðin því að þjóðin á að hafa lokaorðið í málinu.

Að fara í það að stoppa aðildarferlið á þessum tímapunkti er að mínu mati ekki rétt og ekki í þágu íslenskra hagsmuna. Síðan getum við rætt um ýmislegt annað sem kemur beint inn á vandræðagang ríkisstjórnarinnar og vandræðagangur ríkisstjórnarinnar er ekki endilega mestur í tengslum við ESB heldur eru miklu fleiri mál sem skipta þjóðina enn meira máli í dag svo sem atvinnusköpun, framleiðni og verðmætasköpun fyrir þjóðina og reyna að koma af stað hagvexti sem ríkisstjórninni er algjörlega að mistakast að gera. Við hljótum að vera sammála um það. Síðan er hægt að fara í þann vandræðagang sem hefur einkennt þingið núna eftir álit Hæstaréttar og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við ógildingu á stjórnlagaþinginu sem er ríkisstjórninni mjög til vansa.